- Advertisement -

Mogginn sér kolsvart

Það er því ástæðulaust hjá Mogganum að blása í kólguský.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Mogginn telur næsta víst að ferðaþjónustan sé að fara norður og niður í ómálefnalegri grein 17. apríl. Blaðið segir harða lendingu fram undan og farþegafjöldi um Keflavíkurflugvöll hafi dregist saman um 13% í mars.

Rörsýn hindrar að blaðið sjái heildarmyndina og rangar ályktanir eru dregnar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ef Moggagreininni var ætlað að fjalla um breytingar í farþegafjölda um Keflavík þá er samdrátturinn í fjölda farþega um völlinn 13%. En greinin fjallar um ferðaþjónustu almennt. Því er ekki rétt að telja til flugfarþega sem hafa eingöngu snertilendingu á vellinum á leið sinni yfir hafið. Fjöldi farþega inn í landið er það sem telur fyrir ferðaþjónustuna. Fækkaði þeim aðeins um 5% á fyrsta fjórðungi þessa árs samanborið við árið 2018. Ef mars mánuður er skoðaður þá var fækkunin 7% milli áranna en ekki 13%.

Sagan er bara ekki öll sögð, það skortir að skoða heildarmyndina. Fjöldi farþega jókst um 48% á fyrsta ársfjórðungi í samanburði við sama fjórðung árið 2016. Vöxturinn er tröllvaxinn. Það er því einstaklega ómálefnalegt af Mogganum að vera með barlóm.

Svo er það þetta með að sætaframboð hafi dregist saman. Eitt og sér segir það ekkert. Taka verður líka mið af sætanýtingu allra flugfélaganna til lengri tíma. Að skoða þróun milli 12 mánaða er ekki vænlegt, sérstaklega ekki í grein sem þarf marga mánuði til að bregðast við breyttum markaðsaðstæðum.

Það var alltaf vitað að neikvæð umræða um WOW air og kjaraviðræður myndu hafa áhrif niður á við. Árið 2019 er millibilsár og í eðli sínu ekki gott til 12 mánaða samanburðar. Það er því ástæðulaust hjá Mogganum að blása í kólguský.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: