
Jóhann Þorvarðarson:
Þannig að draumurinn um að olían sé á trúverðugri niðurleið er úr sögunni í bili að minnsta kosti. Tæknigreining segir mér að 90 dollarar múrinn á Texas olíutunnunni sé ekki fjarlægur möguleiki.
Írinn Philip R. Lane er aðalhagfræðingur Seðlabanka Evrópu. Hann gaf kost á rósrauðu viðtali upp úr miðbiki marsmánaðar, sem má finna á heimasíðu bankans. Spáir hann því að verðbólga á evrusvæðinu verði komin niður í 2,8 prósent undir lok ársins. Röksemdarfærsla Írans er á einn veg, allir óvissuþættir eiga víst að hverfa og fylgja beinni línu niður á við eða þar til allt er fallið í ljúfa löð um næstu áramót.
Þegar Írinn lagði fram spána þá var verðbólga að jafnaði 8,5 prósent á evrusvæðinu. Mest var hún í Lettlandi eða 20 prósent, en lægst í Lúx eða um 5 prósent. Munstur verðbólgunnar á evrusvæðinu er nánast fullkomið afrit af verðbreytingum í Þýskalandi og á Ítalíu. Á sama tíma er bólgan hófsamari í Frakklandi, en þar í landi þá er hún enn í vexti eins og í Austurríki. Annars staðar á svæðinu þá hefur bólguþrýstingurinn hjaðnað undanfarna fáa mánuði. Ísland er meira eins og Frakkland og Austurríki þó bólgan hafi aðeins gefið eftir í mars. Þannig að Írinn telur að hagkerfi eins og Frakkland og Austurríki muni brátt snúa við og ná betra taumhaldi á sínum verðbreytingum.
Eftir að Írinn lagði sína spá fram þá hafa bráðabirgðatölur fyrir mars komið út og við fyrstu sín þá eru þær lofandi. Jafnaðarverðbólgan féll úr 8,5 prósentum og niður í 6,9 prósent. Aftur á móti ef kíkt er undið húddið þá má finna brunalykt, olía dropar niður á pönnuna. Undirliggjandi verðbólga jókst langt umfram væntingar eða um 1,2 prósentustig og hækkaði árstöluna lítillega. Til samanburðar þá hækkaði almenn verðbólgumæling á Íslandi um 1,39 prósent í febrúar og hríslaðist þá skjálfti um hrygg margra í kjölfarið.
Síðan um miðbik mars…
Síðan umrædd verðbólguspá var sett fram þá hafa stóru olíuríkin ákveðið að draga úr daglegri olíuframleiðslu um milljón tunnur á dag einmitt þegar olíuverð var að nálgast hófsaman stað. Síðan um miðbik mars þá hefur Brent olíutunnan hækkað um 16 prósent og Texmex tunnan um 20 prósent. Þannig að draumurinn um að olían sé á trúverðugri niðurleið er úr sögunni í bili að minnsta kosti. Tæknigreining segir mér að 90 dollarar múrinn á Texas olíutunnunni sé ekki fjarlægur möguleiki.
Mig grunar að Íranum hafi svelgst nokkrum sinnum á svarta Guinessnum að undanförnu þannig að bjórfroðan sullaðist á fína græna bindið. Lærdómurinn er að hagfræðingar geta ekki látið óskhyggju byrgja sér sýn við gerð hagspáa. Beina línan hans Philips er nú þegar orðin hlykkjótt, en vonandi hefur hún ekki snúið svið.