- Advertisement -

Mun Steingrímur Joð axla ábyrgð?

Núverandi og fyrrverandi þingmenn geta ekki verið að rannsaka og dæma sjálfa sig.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Siðanefnd Alþingis hefur í tvígang í sumar sent frá sér álit varðandi tjáningu ákveðinna þingmanna. Í bæði skiptin var fyrrverandi framsóknarráðherra formaður siðanefndar og telst hann vanhæfur og óhlutlaus. Hann er að fjalla um mál sem snúa að pólitískum andstæðingum eða samherjum. Þetta hefur viðkomandi formaður viðurkennt í skriflegri bókun við annað álitið þannig að þetta er óumdeilt!

Einnig er óumdeilt að Jón vék ekki alveg úr nefndinni þó hann segi annað. Hann fylgdist með utan af kanti, var í talsambandi við starfsmann nefndarinnar og nefndarmenn. Bókunin staðfestir þetta þegar Jón segir að nefndin hafi unnið fagmannlega og af heilindum. Hvernig veit hann þetta nema vegna þess að hann horfði yfir öxlina á fólkinu. Annað hvort víkur maður alveg eða sleppir því, ekki er hægt að vera hálfur inni og hálfur úti.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hann hefur þar með og í annað sinn í sumar sett virðingu Alþingis niður í kjallara.

Af þessari ástæðu eru álit siðanefndar ekki hafin yfir gagnrýni, missa marks og trúverðugleika. Hlutdræg málsmeðferð varpar skugga á kjarna málsins. Óhæði siðanefndar verður að vera til staðar í raun og ásýnd.

Það er Steingrímur Joð forseti Alþingis sem velur formann siðanefndar án samráðs við aðra, hann er einvaldur! Að velja svona vandlega vanhæfan og óhlutlausan formann endurspeglar slæleg vinnubrögð Steingríms. Hann hefur þar með og í annað sinn í sumar sett virðingu Alþingis niður í kjallara. Fyrra skiptið var þegar Steingrímur stóð stjórnlaus í ræðustól Alþingis æpandi og berjandi í púltið þegar hann grætti samþingmann.

Óhlutleysið nær inn í forsætisnefnd sem útskrifar álit siðanefndar. Þar sitja pólitískir andstæðingar sem hafa hagsmuni af því að orðspor sakborinna þingmanna úr andstæðum flokkum sé niðurrifið. Það gæti aukið eigið kjörfylgi. Hér skiptir engu máli hver á í hlut. Öll málsmeðferð verður að vera hlutlaus, óháð og sanngjörn eins og krafist er þegar mál fara fyrir dómstóla.

Allir með smá brjóstvit sjá að þetta fyrirkomulag sem Steingrímur Joð ber ábyrgð á og tók þátt í að hanna gengur ekki upp. Núverandi og fyrrverandi þingmenn geta ekki verið að rannsaka og dæma sjálfa sig.

Skipan þessara mála er á skjön við kröfur stjórnsýslulaga um hlutlausa, óháða og réttláta málsmeðferð! Alþingi ætlast til að opinberir starfsmenn fari eftir lögunum en gengur sjálft ekki fram með góðu fordæmi. Þetta minnir óneitanlega á söguna Animal Farm eftir George Orwell. Í sögunni segir háðulega að allir séu jafnir, en sumir bara jafnari en aðrir. Hræsni Alþingis verður vart meiri né augljósari!

Eftir lifir sú áleitna spurning hvort von sé á að Steingrímur Joð axli ábyrgð eftir ítrekaðar svaðilfarir Alþingis og víki úr stól forseta? Ég held að hann sé ekki maður í slíka vegsemd og kjósi álitshnekkinn valdanna vegna. Það kemur þá í hlut annarra þingmanna að reita galfjaðrirnar af monthananum til að verja leifarnar af virðingu Alþingis!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: