- Advertisement -

Munið þið Ármann bankastjóra?

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Hver man ekki eftir Ármanni Þorvaldssyni forstjóri Kviku banka. Einum af forkólfum Kaupþings sem kostaði þjóðarbúið skrilljónir. Fyrir hrun stjórnaði hann Kaupthing Singer & Friedlander á Bretlandi. Banki sem bauð miklu hærri innlánsvexti en almennt þekktust í konungsdæminu. Víðfræg voru merkin Kaupthing Edge og Icesave hjá Landsbankanum.

Þegar bankar bjóða miklu hærri innlánsvexti en keppinautarnir eiga háværar viðvörunarbjöllur að klingja. Viðkomandi banki gæti átt í erfiðleikum með að fjármagna sig og lausafjárstaðan verið slæm. Kaupthing Edge og Icesave var sett á markað á Bretlandi og í Hollandi vegna lausafjárvanda móðurbankanna á Íslandi. Gýligjafir voru boðnar í formi hárra innlánsvaxta.

Ástæða upprifjunar er að nýlega hóf Auður, dótturfélag Kviku, að bjóða sparnaðarreikning með 4% vöxtum og engan binditíma. Kjör sem aðrir bankar jafna ekki.

Samkvæmt eigin athugun þá hljóðar tilboð Auðar upp á 200% hærri ávöxtun en sambærilegustu innlánsreikningar stóru bankanna. Sjálf ber Auður sína vexti saman við meðalvexti á markaði, 0,92%. Munar 435% á tilboði Auðar og annarra markaðsaðila að jafnaði. Munurinn er tröllvaxinn.

Hvað ætlar Auður, dóttir Kviku, að gera við peningana. Þessir háu innlánsvextir og þar með hár fjármögnunarkostnaður Auðar ryðja burtu mörgum fjárfestingakostum. Eftir standa áhættusömustu kostirnir sem aðrir á markaði hafa kannski þegar hafnað.

Auður réttlætir háa innlánsvexti með lágum rekstrarkostnaði, en getur þess ekki að Auður nýtur ekki stærðarhagkvæmni stóru bankanna. Gott og vel, en Kaupthing Singer & Friedlander og Icesave voru einnig með litla yfirbyggingu. Sú saga endaði eins og alþjóð veit í hruninu. Getur verið að gylliboð Auðar sé silkimjúk tálbeita. Það er í það minnsta rík ástæða fyrir neytendur að fara mjög varlega.