- Advertisement -

Mútaði Seðlabankinn lífeyrissjóðum landsins

Afleiðingin er að dýrara verður að fjármagna rekstur landsins, fyrirtækja og heimila.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Í tvígang á þessu ári tilkynnti rokkstjarna Seðlabankans að samkomulag væri í höfn við Landssamband lífeyrissjóða þar sem sjóðirnir samþykktu að halda að sér höndum hvað erlendar fjárfestingar varðar. Á ferðinni var ólögmætt markaðssamráð að mínu mati þó ég fullyrði ekkert. Vann samkomulagið gegn hagsmunum lífeyrissjóða og verður því að setja spurningarmerki við framgöngu þeirra sem gæta hagsmuna sjóðfélaga dags daglega. Fjárfesting erlendis eykur nefnilega gæði eignasafna, minnkar áhættu og eykur stöðugleika arðseminnar. Með samkomulaginu þá fóru sjóðirnir á mis við marga góða fjárfestingakosti erlendis og verður arðsemi sjóðanna mjög líklega lakari fyrir vikið. Ekki bara í ár heldur á næstu misserum. Það mun síðar valda minni framfærslugetu eldri borgara við töku lífeyris en ella. Varðar framferðið því fjölmargar fjölskyldur og hugsanlega ráðstöfun skatttekna ríkissjóðs í framtíðinni.

Þegar hið meinta ólögmæta samkomulag rann sitt skeið á enda tilkynnti rokkstjarnan að hún ætli að opna hirslur öryggissjóðs landsins, sem er í umsjá gengisins í svörtuloftum við Arnarhól. Sem sagt, hafin er útsala innan úr gjaldeyrisforða þjóðarinnar fyrir tugi milljarða og stendur hún fram til áramóta hið minnsta. Um er að ræða mjög vond tíðindi. Minni gjaldeyrisforði eykur ytri áhættu þjóðarbúsins og lækkar lánshæfimat Íslands að öllu öðru óbreyttu. Afleiðingin er að dýrara verður að fjármagna rekstur landsins, fyrirtækja og heimila. Önnur afleiðing, ekki síður alvarleg, er að loftfimleikar stjörnunnar trufla verðmyndun gjaldeyris á markaði. Í stað þess að sjóðirnir versli gjaldeyri beint við bankana eins og almenningur og fyrirtæki gera þá er búið að skapa sérstakan hliðarmarkað fyrir lífeyrissjóðina. Tvöfalt kerfi er starfrækt og skiptir þá engu þó bankarnir hafa hugsanlega milligöngu um viðskiptin.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Grænt ljós hlýtur að hafa fengist frá ríkisstjórninni, annað er óstjórn og spilling.

Sjóðirnir fá gjaldeyri á hagstæðari verðum því verðmyndun á markaði er ekki bara bjöguð, hún er kolröng. Ef Seðlabankinn myndi ekki ganga á öryggissjóð þjóðarinnar þá væri gengi krónunnar annað og betra fyrir þann sem selur sinn gjaldeyri. Þjóðin fengi meira fyrir sína erlendu mynt. Fyrir mér þá líkist þetta mútugreiðslum. Verið er að verðlauna tiltekna markaðsaðila fyrir aðgerðarleysi eða markaðssamráð. Afar slæmt fordæmi er komið fram sem sendir stórundarleg skilaboð inn á markaðinn og til almennings. Sjálfur fordæmi ég hegðunina og ber að rannsaka hana af utanaðkomandi aðila. Helst erlendum aðila því bankinn, eða ríkisstjórn, getur ekki rannsakað sjálfan sig. Að opinber stofnun sé þátttakandi í gjörningi sem þessum er grafalvarlegt mál. Minnir uppákoman óneitanlega á vinnubrögð Kaupþings banka fyrir fjármálahrun þar sem rokkstjarnan starfaði um árabil. Framganga Seðlabankans getur ekki verið án vitundar ríkisstjórnarinnar vegna mikilvægi málsins. Grænt ljós hlýtur að hafa fengist frá ríkisstjórninni, annað er óstjórn og spilling.

Vert er að taka fram í þessu samhengi að fjármálaráðherra landsins hefur eigin áheyrnarfulltrúa á fundum fjármálastöðugleikanefndar bankans og málefni bankans heyra síðan beint undir forsætisráðherra. Af þessum ástæðum þá hugleiði ég að óska eftir afriti af fundargerðum forsætisráðuneytisins varðandi málefni krónunnar, en eðlilegra er að Stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd Alþingis annist málið. Forsætisráðuneytið hlýtur að hafa lært af mistökum Geirs Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem fékk á sig dóm fyrir að halda ekki fundargerðir  varðandi tiltekin mál í kringum fjármálahrunið ef ég man hlutina rétt. Í fundargerðunum hlýtur að koma fram útskýring á því af hverju stjórnvöld ákváðu að taka krónuna ekki tímabundið af markaði vegna fordæmalausra aðstæðna  í stað þess að standa í meintu ólögmætu ráðabruggi. Brugg sem falsaði gengi krónunnar. Almenningi er ranglega talin trú um að verð íslensku krónunnar sé ákvarðað á skilvirkum markaði þar sem framboð og eftirspurn ráða för. Á sama tíma eru stjórnvöld að kokka upp verð að baki myrkum leikhústjöldum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: