
Jóhann Þorvarðarson:
Forstjóri Landsvirkjunar er minni maður eftir viðtalið. Glansmyndin er kámug, jafnvel ófægjanleg.
Ekki skánaði sagan með viðtali RÚV í gærkvöldi við forstjóra Landsvirkjunar vegna útvistunar á verkefni sem kallað er þróunarvinna í uppgerðarsiðsemi. Handhafi verksins er góðkunningi Landsvirkjunar og Sjálfstæðisflokksins.
Nú er reynt að segja að verkefnið hafi verið lítilfjörlegt og skapi Vonarskarði eða Björgvini Skúla Sigurðssyni ekkert forskot. Aðra eins jarðsmugu hef ég ekki heyrt í langa herrans tíð og er af mörgu að taka þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er annars vegar. Já, smugan rann bara kinnroðalaust úr forstjóranum. Blygðunarleysi af þessum toga er bara á færi reyndra lýðskrumara og léttúðin gagnvart alvarleika málsins er hreint sláandi. Fær það mann til að hugsa hvort skrum sé að verða að reglu á vakt ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.
Forstjórinn lagði áherslu á að Vonarskarð hafi nú ekki fengið háa fjárhæð fyrir viðvikið að þessu sinni, sem er í raun aukaatriði í málinu. Aðalatriði málsins er að Landsvirkjun efndi ekki til útboðs eða samkeppni milli aðila sem áhuga kynnu að hafa á verkefninu. Nei, Landsvirkjun leitaði til Vonarskarðs að sögn forstjórans og auðvitað mun reynslan sem góðvinur Landsvirkjunar öðlast reynast drjúg þegar Landsvirkjun stígur stærri skref í málinu á síðari stigum. Þetta er svona svipuð taktík og þegar vildarvinir eru settir ríkisforstjórar tímabundið áður en staða er formlega auglýst. Viðkomandi er þá kominn með mikilvægt forskot sem fleytir honum áfram að lokaniðurstöðunni sem er að þóknanlegur aðili hljóti hnossið þegar þar að kemur.
Forstjóri Landsvirkjunar er minni maður eftir viðtalið. Glansmyndin er kámug, jafnvel ófægjanleg.