- Advertisement -

Myrkraverk í skjóli forsætisráðherra

Vopnin sem dregin voru fram úr vopnabúri bankans geiguðu og vörnin var hriplek.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Það er óumdeilt að peningamálastjórn landsins hefur beðið afhroð. Hún er lestarslys. Á sama tíma og verðbólga í heiminum mælist vera 1,2 prósent að jafnaði þá er hún 4,3 prósent á Fróni samanber myndin sem fylgir. Í Færeyjum og á hinum Norðurlöndunum þá mælist vart nokkur bólga í hagkerfum landanna. Í þessu samhengi þá er rétt að upplýsa að meginhlutverk seðlabanka í heiminum er að halda verðbólgu niðri og í skefjum. Stjórnendum Seðlabanka Íslands hefur mistekist að sinna hlutverkinu. Vopnin sem dregin voru fram úr vopnabúri bankans geiguðu og vörnin var hriplek. Til samlíkingar þá kalla ýmsir eftir því að þjálfari landsliðs karla í handbolta axli ábyrgð vegna hörmulegs árangurs á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi. Hinir sömu vilja að nýjar hugmyndir og nýtt blóð komist að enda sópa nýir vendir best. Gerðar eru eðlilegar kröfur til liðsins um árangur. Það sama hlýtur að eiga við um lykilstjórnendur Seðlabanka Íslands og meðlimi peningastefnunefndar.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Sjálfur tel ég næsta víst að forsætisráðherra muni ekki bregðast við á neinn hátt.
Skjáskot: RÚV.

Málefni bankans heyrir undir forsætisráðherra og það stendur upp á hana að bregðast rétt við. Samkeppnishæfni landsins er undir árás vegna samkeppnishamlandi verðbólgu. Sjálfur tel ég næsta víst að forsætisráðherra muni ekki bregðast við á neinn hátt. Hún lítur á það sem aflaga fer í stjórnsýslunni afar mildum augum. Hún er límið utan um óbreytt ástand þrátt fyrri óstjórnina í bankanum.   

Upp á svörtuloftum við Kalkofnsveg í Reykjavík þá lagði seðlabankastjóri, nánir samverkamenn hans og meðlimir peningastefnunefndar upp með leikplan í upphafi faraldursins. Áætlun sem ég hef verið afar gagnrýninn á. Aðgerðaráætlun bankans var ólík aðgerðum seðlabanka þróaðra hagkerfa í heiminum. Augljóst er að oddvitar íslenska Seðlabankans töldu sig klárari en stjórnendur annarra seðlabanka á jörðinni. Hreint ofmat var á ferðinni, þeir íslensku hafa sannað að þeir eru lakari. Þar fer fremstur sjálfur seðlabankastjóri, sem haft hefur sig mikið í frammi. Meira en almennt þekkist með seðlabankastjóra í heiminum.

Saxast nú hratt á öryggisforða landsins.

Í grófum dráttum þá er aðgerðaráætlun Seðlabanka Íslands óraunhæf og aldrei líkleg til árangurs. Hún gengur út á að hafa krónuna áfram á opnum og frjálsum gjaldeyrismarkaði þó það lægi fyrir að sú ráðstöfun myndi kalla fram harkalega veikingu og mikla verðbólgu. Seðlabankastjóri taldi sig geta talað markaðinn til því hann áleit sig svo trúverðugan. Stjórinn taldi einnig að ólöglegt markaðssamráð bankans og lífeyrissjóða um að sjóðirnir haldi sig frá gjaldeyrismarkaði myndi gagnast. Hvoru tveggja fór á annan veg. Krónan veiktist mikið og var óstöðug ólíkt myntum helstu samkeppnislanda Íslands. Á haustmánuðum þá stefndi krónan í skipsbrot í ölduróti gjaldeyrismarkaða. Oddvitar bankans örvæntu og upphófust mestu gjaldeyrisinngrip Íslandssögunnar. Inngrip sem standa enn yfir. Saxast nú hratt á öryggisforða landsins. Í nýlegum greinaskrifum hér á Miðjunni þá hef ég rökstutt að ég telji það ólögmætt að nota forðann í inngrip, en það er ekki efni pistilsins.

Ólíkt öðrum seðlabönkum þá kaus sá íslenski að færa stýrivextina ekki niður í núll prósent í einu vettvangi við upphafi faraldursins. Skjaldbökuhraðinn varð fyrir valinu og enn eru vextirnir miklu hærri en annars staðar í kringum okkur. Þetta bitnar á atvinnulífinu og stuðlar að meiri verðbólgu en annars staðar þrátt fyrir slaka í hagkerfinu. Við bætist að allt síðasta ár þá talaði seðlabankastjóri um mikil væntanleg magnuppkaup á skuldabréfamarkaði til að auka lausafé í umferð og þrýsta vöxtum niður. Þetta hefur látið á sér standa. Fyrir vikið þá hefur ein verðmætasta eign Seðlabanka Íslands rýrnað hratt, trúverðugleikinn er á undanhaldi. Það sem bankinn hefur gert vel er að lækka eiginfjárkröfu banka ásamt því að draga úr hvata að geyma fé hjá Seðlabankanum. Málið er að of lítið er að gert og of seint, aðgerðirnar eru veikburða.

Þetta er sjálfskapaður vítahringur.

Samantekið, þá hafa aðgerðir bankans heilt yfir ekki skilað tilætluðum árangri. Verðbólga er á skriði og atvinnuleysi á Íslandi er 12,1 prósent, sem er það hæsta í samanburði við önnur þróuð lönd. Aðgerðir bankans hafa aftur á móti stutt við byggingariðnaðinn, en um leið valdið miklum verðhækkunum á fasteignamarkaði. Leikplanið er grunnurinn að þeirri miklu verðbólgu sem er í gangi á Íslandi og veikari króna hefur hjálpað sægreifum að græða ótæpilega á kostnað almennings. Verðbólguhæðin dregur síðan úr getu bankans að halda vöxtum lágum til lengri tíma. Þetta er sjálfskapaður vítahringur.

Neytandi sem skuldaði 40 milljónir króna í verðtryggðu íbúðaláni fyrir 12 mánuðum og hefur ekkert greitt af sínu láni skuldar í dag rúmlega 1,7 milljónir króna meira en í upphafi. Fyrir launþega með sex hundruð þúsund krónur í mánaðarlaun eða 7,2 milljónir á ári þá er þetta 23,6 prósent einskiptis launarýrnun. Ef á Íslandi hefði ríkt verðhjöðnun eins og í Færeyjum þá hefði höfuðstóll lánsins lækkað. Ofan á þetta bætist síðan rýrnun kaupmáttar launa vegna verðhækkana á öllum vígstöðvum. Af þessum ástæðum öllum þá verður forsætisráðherra að grípa til mannabreytinga í efstu lögum bankans. Eins og ég sagði þá mun hún ekki lyfta fingri. Hún er innmúruð, komin úr tengslum við landsmenn.         


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: