- Advertisement -

Náðargáfur Guðrúnar Hafsteins

Jóhann Þorvarðarson:

Umboðsmaður gegnir áríðandi starfi því spilling er ávísun á sóun verðmæta og barbarisma. Uppræting opinberrar spillingar verður ekki metin til fjár, en það er ótvírætt að heilbrigð siðmenning leggur grunninn að allri verðmætasköpun.

Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er þeirrar náttúru gædd að geta verið ósammála sjálfri sér svo úr verður óskoðun. Um þennan eiginleika fjallaði ég um hér. Henni er þó fleira til lista lagt eins og að senda frá sér óhugsaðar yfirlýsingar. Sú nýjasta kemur hér „Það verða engin verðmæti til í skúffum embættismanna“.

Embættismaður er opinber starfsmaður skipaður til fimm ára í senn til að gegna trúnaðarstörfum sem eru samfélaginu mikilvæg. Umboðsmaður Alþingis er dæmi um embættismann, en hann rannsakar nú hvort fjármálaráðherra hafi gerst sekur um spillingu við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Umboðsmaður gegnir áríðandi starfi því spilling er ávísun á sóun verðmæta og barbarisma. Uppræting opinberrar spillingar verður ekki metin til fjár, en það er ótvírætt að heilbrigð siðmenning leggur grunninn að allri verðmætasköpun.

Forstjóri Orkustofnunar er dæmi um annan embættismann, en stofnunin aflar þekkingar á nýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda. Á viðsjárverðum tímum hamfarahlýnunar þá er það lífsspursmál fyrir líf á  jörðinni að maðurinn þrói áfram þekkingu á nýtingu umhverfisvænna orkugjafa. Þessi vinna verður ekki heldur metin til fjár, en framlag Íslands verður ætíð mikilvægt. Aukreitis þá hjálpar starf Orkustofnunar atvinnulífinu og leggur grunn að margþættum útflutningi.

Þriðja dæmið um embættismann er forstjóri Umhverfisstofnunar, en stofnunin sinnir margþættu hlutverki í umhverfisvernd. Lunginn af erlendum ferðamönnum sem sækja Ísland heim gerir það vegna náttúrunnar, lífríkisins og óraskaðs lands. Náttúrusýnin er án hliðstæðu.

Þegar hún kemst í gegnum þær útskýringar þá fyrst er hún hæf til tjáningar um efnið. Ekki fyrr!

Flestar ef ekki allar opinberar stofnanir skapa gjaldeyristekjur með óbeinum hætti og það gagnast íslensku velferðarkerfi. Meira þarf til, en embættismenn eru mikilvægir. Framúrskarandi embættismaður er enn mikilvægari. Í þessu sambandi þá má uppræta spillingu við val á embættismönnum. Sá hæfasti er ekki alltaf fyrir valinu eins gerðist þegar núverandi vegamálastjóri var skipaður. Formaður Framsóknar ákvað að skipa dýralækni, sem hann þekkti persónulega, í starf sem hæfir sérmenntuðum verkfræðingi.

Yfirlýsing Guðrún Hafsteinsdóttir endurspeglar með sorglegum hætti hversu illa hún er að sér um grundvöll verðmætasköpunar. Hún mætti þess vegna hugleiða af hverju Ísland lendir langt fyrir neðan önnur Norðurlönd á spillingarlistum eins og til dæmis Transparency International. Og afhverju er Ísland númer 18 þegar kemur að fjölmiðlafrelsi þegar önnur Norðurlönd raða sér á toppinn? Þegar hún kemst í gegnum þær útskýringar þá fyrst er hún hæf til tjáningar um efnið. Ekki fyrr!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: