- Advertisement -

Nauðsyn að skoða bankareikninga Kristjáns Þórs og Bjarna

Það er líka fullkomlega óeðlilegt að hann sitji ríkisstjórnarfundi og taki ákvarðanir sem tengjast Samherjamálinu.

Katrín Baldursdóttir skrifar:

Nú á að krefjast þess að allir bankareikningar Kristján Þórs sjávarútvegsráðherra verði opnaðir og skoðaðir vel, sem og öll möguleg tengsl hans við skattaskjól. Það sama á að gera við reikninga Bjarna Ben fjármálaráðherra. Tengsl Kristjáns Þórs við kvótakónginn og auðkýfinginn Þorstein Má eru langt frá því að vera einföld vinatengsl. Aðkoma Kristjáns að fyrirgreiðslum til kvótakónga er ekki einu sinni dulin. Hún er augljós. Meira segja gagnsæ, eins og sagt er. Tökum nokkur dæmi sem eru kunn!

1. Samherji og tengdir aðilar eiga meira en 12% hlutdeild í aflaheimildum og því þarf að breyta lögunum til að Samherji geti átt meira. Kristján hleypur til semur frumvarp svo það verði hægt. Það á bara eftir að samþykkja það. Sama gildir um Guðmund í Brimi. Hann vill eiga meira en 12% eins og lögin segja til um núna. Málið er að það hefur enginn hag af þessari aukningu á aflahlutdeildum nema auðkýfingarnir. Og Kristján gerir það sem þeir vilja.

2. Ef þessir útgerðarrisar vilja kaupa fleiri útgerðarfyrirtæki þá er líklegt að Samkeppniseftirlitið samþykki það ekki. Og hvað gerir Kristján Þór þá? Hann ákveður að Samkeppniseftirlitið verði lamað á þann hátt að fyrirtækin geti sjálf ákveðið hvort þau séu í samkeppni við hvort annað. Frumvarp þess eðlis er tilbúið eða í smíðum.

3. Veiðigjöldin eru lækkuð! Rök Kristjáns Þórs og Bjarna Ben eru þau að útgerðin skili ekki eins miklum hagnaði eins og áður og taka verði tillit til þess. Og það þrátt fyrir að t.d. Þorsteinn Már greiði sér arð sem aldrei fyrr. Einnig telja ráðherrarnir eðlilegt að lækka veiðigjöldin svo að þessir útgerðarrisar geti keypt sér ný skip og önnur tæki og tól til að klassa upp hjá sér.

Auðvitað á Kristján Þór að vera búinn að segja af sér.

Samband þessara útgerðarmanna við bæði sjávarútvegsráðuneytið og fjármálaráðuneytið undir stjórn Kristjáns Þórs og Bjarna Ben eru fullkomlega óeðlileg og öll þessi fyrirgreiðsla getur varla byggst á öðru en því að ráðherrarnir fái eitthvað verulega bitastætt í staðinn. Því þarf að opna alla þeirra bankareikninga, skoða hlutabréf, aflandsreikninga sem liggja mögulega til þeirra í gegnum einhverja nafnarunu félaga.

Auðvitað á Kristján Þór að vera búinn að segja af sér. Það er líka fullkomlega óeðlilegt að hann sitji ríkisstjórnarfundi og taki ákvarðanir sem tengjast Samherjamálinu. Að öllum líkindum tekur hann upp tólið og hringir í vin. Lekur öllu til Þorsteins Más. Líka því sem gerist á nefndarfundum. Svo er líka fullkomlega óeðlilegt og óforskammað að Kristján stýrir spillingarannsóknum vegna Samherjamálsins. Það er bara absúrd.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: