
Þar stunda ritstjórarnir þá iðju að henda verðmætum út um gluggann á degi hverjum.
Jóhann Þorvarðarson
Sá sem ritar leiðara dagsins fyrir áróðurssnepilinn Morgunblaðið tilheyrir ekki hópi skörpustu hnífa landsins. Viðkomandi er í raun alveg bitlaus, jafnvel ryðgaður. Setur fram niðurrifs áróður í garð opinberra starfsmanna sem jafnast á við rasisma og kvennfyrirlitningu. Fullyrt er að opinberir starfsmenn séu lakari en þeir sem starfa hjá einkageiranum. Þessi vitleysa heyrist reglulega frá þessum snepli. Skoðum hrokann og heimskuna örstutt.
Kennarar landsins skapa ein mestu verðmæti sem verða til í landinu þegar þeir undirbúa nemendur frá unga aldri fyrir atvinnulífið. Menntaða fólkið skapar verðmæti annað hvort hjá einkafyrirtækjum eða hinu opinbera. Starfsfólk álvera er fólk sem hlaut menntun hjá hinu opinbera. Starfsmenn á skipum landsins öðlaðist margt hvert menntun hjá Stýrimannaskólanum. Heilbrigðisstarfsfólk er menntað hjá opinberum skólum og vinnur daglega að hagsmunum atvinnulífsins eins og kemur svo vel fram í faraldrinum. Löggæslumenn landsins skapa einnig verðmæti. Það á vart að þurfa að minnast á þetta nema vegna hins illa upplýsta og fordómafulla leigupenna Moggans. Blað sem rekið er með gríðarlegu tapi ár hvert. Þar stunda ritstjórarnir þá iðju að henda verðmætum út um gluggann á degi hverjum og mun blaðið væntanlega sækja um ríkisstyrk á næsta ári. Svo má ekki gleyma því að annar ritstjóra blaðsins hefur verið opinber starfsmaður nánast allan sinn starfsferil og tókst það sem engum Íslending hefur tekist, að reka heilan seðlabanka í gjaldþrot.
…að reka heilan seðlabanka í gjaldþrot.
Grundvöllur verðmætasköpunar er að fyrir hendi sé eftirspurn frá neytendum. Launþegar skipa að langstærstum hluta hóp neytenda. Nærtækt dæmi um mikilvægi eftirspurnar í verðmætasköpun er til dæmis Icelandair. Virði fyrirtækisins er komið í hrakvirði vegna þess að eftirspurn eftir þjónustu þess er önnur og minni en áður. Hótel landsins, hvers virði eru þau í dag þegar eftirspurn er í lágpunkti. Til að bregðast við minnkaðri eftirspurn þá eru launþegar hins opinbera beðnir um að vera duglegir að ferðast um eigið land vegna þess að ferðaþjónustan þarf á eftirspurninni að halda. Hvert væri virði verslana ef opinberir starfsmenn myndu bara hætta að versla inn nema það allra allra nauðsynlegasta næstu árin. Svarið liggur alveg fyrir, en ritari leiðarans áttar sig alls ekki á samhengi hlutanna í hagkerfinu enda sjálfur stútfullur af fyrirlitningu.
Ástæða þess að Íslendingar búa við fjarskipti á heimsmælikvarða má rekja til ríkisfyrirtækisins Póstur & Sími sem var og hét. Áratugum saman þá skoraði Ísland hátt þegar kom að alþjóðlegum samanburði á gæði fjarskiptaþjónustu og lágum kostnaði. Ísland var eitt af fyrstu löndum veraldar til að taka jarðstöð í gagnið og talsamband við útlönd í gegnum gervihnött. Við búum enn í dag að þessum frumherja í fjarskiptum. Svo eru það hitaveitur landsins. Þær byggja allar á tækni og framkvæmd sem byrjaði á vegum hitaveitu borgarinnar fyrir 100 árum síðan. Tækni og þekking sem enn í dag er í fararbroddi á heimsvísu. Þessi tvö skörpu dæmi sýna svo vel að opinberir starfsmenn eru alveg jafn mikilvægir og þeir sem starfa hjá einkageiranum. Að halda öðru fram er rakalaus þvættingur!