- Advertisement -

Nei, orðspor Íslands laskast nær ekkert

Líkur geta dottið með okkur en geta einnig fallið á verri veg.

Hallgrímur Óskarsson skrifar:

Nei, orðspor Íslands laskast nær ekkert – og alls ekki til langs tíma – þó að það komi önnur bylgja COVID-19 faraldursins, í kjölfar þess að landið verður opnað aftur í skrefum. Ástæðan er sú að enginn er að leyna, ljúga, svíkja loforð, hagræða staðreyndum, vinna að hagsmunum fárra, enginn er að reyna að blekkja; enginn er að leika tveimur skjöldum og enginn er í leyni að skara eld að eigin köku.
TRAUST laskast þegar einhver reynir ofangreint. Þegar einhver svíkur sáttmála eða siðferði – beint eða óbeint. Þó að önnur bylgja sjúkdómsins fari af stað – þá eru allir sem standa að málum – þríeykið frækna – að reyna sitt besta og spila ákveðinn áhættuleik með líkur, með og á móti. Líkur geta dottið með okkur en geta einnig fallið á verri veg. Hugsanlega eiga margir eftir að stíga fram, ef sjúkdómurinn fer aftur af stað, og segja „ég sagði ykkur að fara ekki svona bratt af stað“ en slík orð hafa lítið vægi og eru eftiráspeki, í besta falli.
Sóttvarnarvinnan hér á landi er nefnilega gott dæmi um hvað hægt er að vinna þétt að hagsmunum almennings þegar pólitíkin hoppar ekki á hænsnaprikið og galar og þegar fólk er ekki að skiptast í deildir, flokka, klíkur og hópa. Við erum hér í stutta stund á einu skeri og eigum miklu meira sameiginlegt heldur en deilur dagsins bera vott um.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: