- Advertisement -

Neytendavaktin: Gourmet fíflið ég

Jóhann Þorvarðarson:

Karl Ágúst Úlfsson bjargaði sem betur fer, restinni af kvöldinu með frábærri lokasýningu á Fíflinu í Tjarnarbíói. Ég var í það minnsta ekki eina fífl kvöldsins, en þannig leið mér þegar ég yfirgaf veitingahúsið.

Þetta er framhaldssaga af „Óskaskrín snuðar viðskiptavini“. Þannig er að ég fór út að borða í gærkvöld á prýðilegan veitingastað í Reykjavík með „Gourmet“ gjafakort frá Óskaskríni í vasanum.

Á heimasíðu Óskaskríns segir orðrétt kortið „Úrval þriggja til fimm rétta kvöldverða fyrir tvo hjá mörgum af bestu veitingahúsum landsins. Pottþétt gjöf handa öllum sem elska góðan mat“. Hljómar vel og er andvirði gjafakortsins 16.900 krónur. Engar takmarkanir eru á notkun þess samkvæmt heimasíðu Óskaskríns nema að áfengir drykkir eru ekki innifaldir.

Maturinn var hreinasta fyrirtak og vel úti látinn, en svo kom bömmerinn. Ég rétti fram „Gourmet“ gjafakortið, en var sagt að ég hefði þurft að tilkynna það við komuna um að ég ætlaði að greiða með Óskaskríns kortinu. Nú, hváði ég. Jú, ég heyrði rétt. Þeir sem eru með „Gourmet“ kort fá nefnilega ekki að velja af matseðli heldur er búið að ákveða fyrir fram hvað lagt verður á borð svona eins og í mötuneyti skóla og fyrirtækja. Einmitt, sagði ég. Borgaði síðan með bankakortinu 17.000 krónur fyrir matinn um leið og ég spurði hvaða réttir þetta væru sem hið háæruverðuga veitingahús hefði viljað skammta mér. Nefndur var einn tiltekinn forréttur, tveir aðalréttir og ekkert meðlæti.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Allt voru þetta nú réttir sem ekki vöktu áhuga þegar pantað var fyrr um kvöldið, en andvirðið þeirra samkvæmt matseðli staðarins er 11.900 krónur. Sem sagt, 5.000 þúsund krónur gufa upp þegar „Gourmet“ kortið er notað.

Málið lítur þá svona út. Þeir sem vilja gefa „Gourmet“ kort, til dæmis í afmælisgjöf, eru jafnframt að henda 5.000 krónum í Óskaskrín. Hagfelldara er fyrir gjafarann og gjafþegann að afhenda peningaumslag eins og tíðkast hefur í áratugi eða kaupa bara inneign beint frá áhugaverðu veitingahúsi. Þá verður ekki 30 prósent rýrnun á gjöfinni og gjafþeginn verður ekki meðhöndlaður eins og annars flokks viðskiptavinur.

Fyrir hver 10 þúsund „Gourmet“ kort þá eru gjafara að henda 50.000.000 króna í Óskaskrín. Karl Ágúst Úlfsson bjargaði sem betur fer, restinni af kvöldinu með frábærri lokasýningu á Fíflinu í Tjarnarbíói. Ég var í það minnsta ekki eina fífl kvöldsins, en þannig leið mér þegar ég yfirgaf veitingahúsið.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: