- Advertisement -

Nokkur orð um yfirlýsingu Hagsmunasamtaka heimilanna

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Hagsmunasamtök Heimilanna (HH) sendi frá sér yfirlýsingu í gær í tilefni vaxtahækkunar Seðlabanka Íslands, samanber hér „Bankarnir skulda neytendum vaxtalækkanir!“. Því miður er yfirlýsingin skrifuð af þekkingarleysi á vaxtarkúrfunni og hvaða þættir móta vextina hverju sinni. Í yfirlýsingunni er einnig gefið til kynna að lánastofnunum beri að bregðast við vaxtaákvörðunum Seðlabankans og þá í einhverju föstu og vélrænu sambandi. Hvoru tveggja er rangt.

Vaxtarkúrfan er ekki bein lína upp eða niður á við. Hún getur aftur á móti verið flöt, en það er afar sjaldgæft ástand og varir þá í skamman tíma. Lögun vaxtarkúrfunnar ræðst meðal annars af verðbólguvæntingum, lengd skuldar og undirliggjandi áhættu. Ef verðbólguvæntingar, að öllu öðru jöfnu,  eru vaxandi þá er kúrfan kúpt upp á við eða niður á við séu væntingarnar fallandi í tíma. 

Niðurstöður áhættumælinga eru kvikar, breytast hratt þegar svo ber undir. Þegar kóvít-19 reið yfir þá jókst útlánaáhætta banka um allan heim og áhættuþáttur vaxta jókst af sama skapi. Það skýrir af hverju bankar fylgdu ekki vaxtalækkun seðlabanka að öllu leyti. Í dag þá er önnur áhætta í sviðsljósinu eða hratt vaxandi verðbólga. Hún eykur útlánaáhættu banka og þeir verða að bregðast við því án tilskipunar frá Seðlabankanum eða HH. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem formaður HH, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, tekur þátt í glórulausri tjáningu um verðbólgu og vexti, en hún er einnig þingmaður Flokk fólksins. Á dögunum lagði flokkurinn fram skammarlegt lagafrumvarp varðandi verðbólgumælingar samanber umfjöllun mína hér „Er Tommi enn sofandi í vinnunni“.  Þar leggur flokkurinn til að verðmælingar verði falsaðar til að halda mælingunum niðri. Rétt áður þá var hún með aðra tjáningu úr ræðustól Alþingis og þá um að bankaskattur yrði hækkaður. Hún gerir sér ekki grein fyrir að slíkur skattur hækkar bankavexti.

Ef HH, Ásthildur og Flokkur fólksins hafa raunverulegan áhuga á að ná vöxtum varanlega niður hér á landi þá gerist það ekki öðruvísi en að Ísland verði aðili að stærra myntsvæði. Ég hef ekki heyrt þessa aðila tala um að evran verði hluti af íslensku hagkerfi enda hef ég efasemdir um að Flokkur fólksins sé í raun flokkur fólksins. Með aðild að stærra myntsvæði fengist hressileg kjarabót í gegnum lága vexti og aukna samkeppni milli banka. Það er einfaldlega ekki bæði haldið og sleppt í þessum málum því íslensk króna leiðir af sér háa vexti.


Auglýsing