Fréttir

Noregur: Átök um fjárlagafrumvarpið

By Miðjan

November 13, 2020

Guðni Ölversson skrifar:

Nú reynir ríkisstjórn Ernu Solberg að hnoða saman fjárlagafrumvarpi sínu fyrir árið 2021. Til að fá það samþykkt er Erna háð stuðningi Framfaraflokksins sem sagði sig úr ríkisstjórninni í upphafi ársins. Eins og alltaf krefst Frp að ríkisstjórnin kafi með krumlurnar dýpra í Eftirlaunasjóðinn sem áður hét Olíusjóður. Sylvi Listhaug, varaformaður Frp og fyrrum ráðherra sem rekinn var úr ríkisstjórninni, fer fyrir flokki sínum í fjárlagasamningunum við ríkisstjórnina. Hún krefst þess að náð verði í meira fé, frá Eftirlaunasjóðnum til þess að hjálpa fyrirtækjum sem sárt eru leikin af Covid 19 harmleiknum.

Aldrei þessu vant er Verkamannaflokkurinn sammála Frp um að seilast dýpra í sjóðinn en vilja að sjálfsögðu verja þeim fjármunum á annan hátt en Sylvi og hennar flokkur. Ap vill styðja heilbrigðiskerfið með því að fækka sjúklingum hjá heimilislæknum um 50 á hvern lækni. Svo eru hin hefðbundnu hjartans mál Verkamannaflokksins, útrýming atvinnuleysis, velferðarmál og baráttan fyrir betra loftslagi það sem flokkurinn vill eyða meira af olíupeningunum í.