
Jóhann Þorvarðarson:
Ef upp koma alvarlegar aðstæður á fjármálamörkuðum veraldar þá hefur það sýnt sig að krónan má sín lítils og er í raun tifandi tímasprengja. Risavaxinn gjaldeyrisforði breytir hér engu.
Jón Baldvin Hannibalsson var í útvarpsviðtali hjá Sögu þar sem hann sagði orðrétt „það er fýsileg leið að taka upp traustan stóran gjaldmiðil, stabilítet, eins og evruna, en að á því væru annmarkar þegar fram líða stundir. Og ég upplifi það mjög vel hjá löndum eins og Spáni, Ítalíu og Grikklandi, suður Evrópuríkjunum. Þau búa við það að vera með sama gengi og hentar ríkasta landinu Þýskalandi. Evran er í raun og veru á því gengi sem hentar útflutningshagsmunum Þýskalands, sem er iðnvæddasta ríki Evrópu með gríðarlega öflugan útflutning af framleiðsluvörum og evran er veikari en þýska markið var. Þannig að hún hefur styrkt samkeppnishæfni Þýskalands og ekki hjálpað Ítalíu mikið“.
Þetta sagði hann í framhaldi af umræðu í þættinum að á Íslandi hefði sá háttur verið hafður á að fella gengi íslensku krónunnar til að endurvekja samkeppnishæfni útflutningsgreina þegar til dæmis aflabrestur varð. Fyrir vikið þá væri hann á móti upptöku evrunnar, en þannig skyldi ég orð hans.
Ég verð að segja að mér var talsvert brugðið við að hlusta á málflutning Jóns Baldvins, sem óneitanlega er helsti hvatamaður þess að Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES), fjórfrelsinu. Mér leið eins og að risi fortíðar hefði vaknað eftir áratuga dvala og ekki áttað sig á þróun mála frá þeim tíma þegar tal hans var í tísku á síðustu öld. Þróaðar þjóðir hafa nefnilega fyrir löngu hafnað gjaldfellingu eigin mynta sem efnahagslegri úrlausn. Evran var sett á fót meðal annars vegna þess að gjaldeyrisstríð skilar engum neinu. Alveg eins og önnur stríð þá eru þau skaðvaldar.
Af hverju ætli það sé?
Löndum sem er með evru sem sinn þjóðargjaldmiðil fjölgaði um áramótin þegar Króatía bætist í hópinn og fleiri ríki eru í biðröð eftir að fá að taka evruna upp. Af hverju ætli það sé? Jú, vegna þess að kostirnir eru langtum fleiri en lítilfjörlegir ókostirnir. Löndin sem Jón Baldvin taldi upp hafa öll ákveðið að halda evrunni þó öðru hverju spretti upp umræða fámennra fortíðarsinna með nostalgíu fyrir hinu úrelta.
Grikkland lenti í úlfakreppu í fjármálahruninu, en kaus samt að halda áfram með evruna frekar en að endurvekja drökmuna. Annað hefði nefnilega verið ávísun á glundroða: óðaverðbólgu, áframhald stjórnsýsluspillingar og þjóðargjaldþrot vegna skuldafalls. Grikkjum er að takast að vinna jafnt og þétt á atvinnuleysinu, sem er komið niður í 10 prósent eftir að tæpur þriðjungur þjóðarinnar varð atvinnulaus. Landið er eitt þeirra evrulanda sem er með lægstu verðbólguna á samræmdan mælikvarða. Og Grikklandi hefur náð þeim árangri að breyta sér úr því að vera með tugprósenta verðbólgu yfir í hagkerfi með verðstöðugleika utan stökksins í kjölfar kóvíts. Þar spilar evran stóra rullu.
Það er öfugsnúið að hlusta á evrumálflutning Jóns því sjálfur segist hann eyða mestum sínum tíma í sveitarfélaginu Andalúsíu syðst á Spáni þar sem hann nýtur kosta evrunnar.
Spánn er með næst lægstu verðbólguna á evrusvæðinu. Í dag þá er hún rétt yfir 3 prósentum á meðan Íslendingar eru með 10 prósent bólgu. Þegar Spánn tók upp evruna þá var atvinnuleysi í draumalandi Jóns Baldvins meira en 25 prósent, en var komið niður í 8 prósent þegar fjármálahrunið skall á. Á næstu árum þar á eftir þá rauk það aftur upp í 25 prósent, en er núna komið niður í 13 prósent og hefur minnkað hratt.
Það er óumdeilt…
Yfirlýsing Jóns Baldvins um að gengi evrunnar sé skráð út frá hagsmunum Þýskalands er spaugileg della enda ákvarðast gengið á gjaldeyrismarkaði, sem er sá dýpsti í veröldinni. Þar ræður ekkert falið vald verðinu á evrunni. Evrópski seðlabankinn eða sá þýski stjórnar þar engu. Jón Baldvin ætti að hugleiða af hverju um 80 prósent af öllum heimsviðskiptum fara fram í evrum eða dollar? Þar á blaði eru ástæður sem hafna þankagangi Jóns um að gengisfelling sé ákjósanlegur valmöguleiki í hagstjórnarlegu tilliti.
Bandaríkin er fylkjasamband með einn gjaldmiðil alveg eins og á evrusvæðinu. Það er óumdeilt að sterkur, trúverðugur og sameiginlegur gjaldmiðill lagði grunninn að efnahagslegri farsæld landsins. Þar er aldrei rætt af alvöru að einstök fylki taki upp sinn eigin gjaldmiðil þegar harðnar á dalnum. Ef upp koma alvarlegar aðstæður á fjármálamörkuðum veraldar þá hefur það sýnt sig að krónan má sín lítils og er í raun tifandi tímasprengja. Risavaxinn gjaldeyrisforði breytir hér engu.