- Advertisement -

Nútíma landráðamenn

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Hann kom blygðunarlaust fram í ræðustól Alþingis og rakti lagabrotin í smáum atriðum. Laug síðan að þjóðinni í beinni útsendingu um að brotin hafi engin áhrif haft á niðurstöður kosninganna

Ég átti erfitt með svefn í nótt vegna þess að ég gat ekki hætt að hugsa um glæpavæðingu Alþingis Íslendinga. Og það fyrir framan nefið á okkur. Alþingi er ólöglega skipað. Lagabrotin í kringum síðustu kosningar eru viðurkennd. Enginn andmælir brotunum. Ekki heldur hinir brotlegu. En svo er landráðið klætt í þriggja andlita umbúðir í tilraun til að ljá árásinni á lýðræðið afsökun.

Fyrsta andlitið tilheyrir Birgi Ármannssyni, sem gjarnan er sendur út á akurinn af Sjálfstæðisflokki þegar kæfa þarf almannahagsmuni eða fela skít. Hann kom blygðunarlaust fram í ræðustól Alþingis og rakti lagabrotin í smáum atriðum. Laug síðan að þjóðinni í beinni útsendingu um að brotin hafi engin áhrif haft á niðurstöður kosninganna. Og það ofan í þá staðreynd að búið er að sýna fram á að enginn fræðilegur möguleiki var á því að Sjálfstæðisflokkurinn fengi 10 af þeim 12 atkvæðum sem dúkkuðu upp í seinni talningunni í Borgarnesi. Seinni talningin breytti skipan Alþingis. Inn á þingi eru margir þingmenn sem eru ólöglega skipaðir. Hlutu ekki löglega kosningu.

Innmúraður sjálfstæðismaður, Ingi Tryggvason, átti rúmlega 30 mínútna kósístund með óvörðum kjörgögnunum í Borgarnesi án viðurvist vitna. Enginn veit hvað hann gerði á þeim tíma nema hann sjálfur. Það eitt og sér dugar til að ógilda kosningarnar. Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði orðrétt árið 2011 „Það er ekki hægt að búa við það við framkvæmd almennra kosninga í landinu að það ríki almennur vafi um hvort rétt hafi verið staðið að málum“.

Andlitin þrjú, Líneik Anna Sævarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Birgir Ármannsson.
Á heimavelli þá munu eingöngu ólög koma frá Alþingi og ætlast til að landsmenn virði lögin.

Andlit númer tvö er í eigu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Hún fann hjá sér þörf til að birtast sérstaklega í sjónvarpsviðtali áður en Alþingi greiddi atkvæði um lögbrotin. Sagðist ætla að styðja við landráð, vinna stjórnarskrá landsins miska. Katrín færði engin haldbær rök fyrir máli sínu, ekki frekar en Birgir. Það var ekki laust við að Katrín væri stolt af stuðningi sínum við ólögmætið.

Þriðja andlitið er Líneik Anna Sævarsdóttir þingmaður Framsóknar. Hún, eins og Birgir, eyddi miklum tíma í að ljúga að þjóðinni að kosningalögbrotin hafi ekki haft áhrif á niðurstöður kosninga. Orð hennar í ræðustól Alþingis verðskulda ávarp, en það verður gert í annarri grein svo yfirgengileg voru orð hennar.

Með ólöglega skipað Alþingi þá er Ísland komið á lista með Hvíta Rússlandi þar sem kosningasvindl fer einnig fram fyrir opnum tjöldum. Enginn hlustar á Hvíta Rússland á alþjóðavettvangi og heima við þá eru mannréttindabrot daglegt brauð.

Það sama bíður Íslands þar til kosið hefur verið löglega til Alþingis og föðurlandssvikarar þaggaðir niður. Á heimavelli þá munu eingöngu ólög koma frá Alþingi og ætlast til að landsmenn virði lögin. Þetta er eins og ef þjóðin hefði verið beðin um að styðja Breta í Þorskastríðinu. Gerast málaliðar óvinarins. Byrjað er að molna undan stoðum lýðræðis sem ávannst með blóði, svita og tárum forfeðra á síðustu og þar síðustu öld. Komin er ögurstund um að verja lýðræðið á sama tíma og uppi er önnur lögreglurannsókn á mögulegu kosningasvindli í SV kjördæmi.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: