- Advertisement -

Nýir kjarasamningar og vextir

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Í nýjum kjarasamningum er uppsagnarákvæði ef Seðlabanki Íslands lækkar ekki stýrivexti. Þetta er nýmæli og skiljanleg krafa. Alltof stór hluti tekna í landinu fer í vaxtagreiðslur og verðbætur.

En er krafan raunhæf. Samkvæmt núgildandi lögum um seðlabankann þá er svarið nei. Aðalhlutverk bankans er að viðhalda verðstöðugleika og eru stýrivextir fremsta stjórntæki bankans.

Það er ekki eins og bankann dreymi um að halda vöxtum háum heldur er það efnahagsumhverfið sem stjórnar ferðinni. Bankinn bregst fyrst og fremst við aðstæðum. Því forsjálli sem bankinn er því betra fyrir alla. Það versta af öllu er hækkandi verðbólga. Þá rýrnar aukinn kaupmáttur og hverfur jafnvel.

Ef seðlabankinn metur kjarasamninga jákvætt og aðrir þættir eru ekki að setja verðbólgu á loft þá eru forsendur til lækkunar stýrivaxta. Annars ekki. Lögum samkvæmt þá getur bankinn ekki elt dægurstrauma. Hann þarf ávallt að halda sjó og réttri stefnu.

Ef stýrivextir eru lækkaðir út frá röngum forsendum þá er bara tvennt í stöðunni. Í fyrsta lagi að hækka vextina aftur eða láta verðbólgu rýra kaupmáttinn. Fyrri kosturinn er alltaf betri.

Þetta nýja forsenduákvæði kjarasamninga hlýtur að hafa dýpri merkingu til langs tíma. Varanlega lægri vextir nást ekki fram á meðan Ísland er með eigin mynt sem leikur lausum hala á markaði (muna ekki allir eftir hruninu). Aðilar vinnumarkaðarins eru því í raun að kalla eftir nýrri skipan um krónuna.

Þetta ákall verður að taka alvarlega. Farsælast er að ríkisstjórnin slugsi ekki við ákallinu. Annars gætu  nýgerðir kjarasamningar verið skammgóður vermir. Svona eins og vopnahlé. Formaður Eflingar orðaði hlutina svo að baráttu láglaunafólks væri ekki lokið. Málið er of stórt og alltof dýrt fyrir þvermóðsku stjórnmálamanna. Ræða verður framtíðarskipan myntmála af þunga.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: