- Advertisement -

Nýju föt keisarans klæða forsætisráðherra vel

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Forsætisráðherra getur því miður ekki horft á staðreyndir málsins hlutlaust og komist að heilbrigðri niðurstöðu vegna eigin mótþróa.

Ég hef í greinaskrifum mínum stundum bent á pólitískt dómgreindarleysi forsætisráðherra. Sá skortur á ekki rætur að rekja til gáfnafars ráðherrans því óumdeilt er að hún er gædd fínum gáfum. Það er  bara ekki alltaf samhengi á milli gáfna og dómgreindar enda er Íslandssagan uppfull af vandræðalegum dæmum um gjánna sem getur verið þarna á milli.

Hver man til dæmis ekki eftir því þegar Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti sagði um útrásarvíkingana „you ain´t seen nothing yet“ þegar hann flaug um heiminn í einkaþotu sömu aðila. Forsetinn fyrrverandi er nefnilega haldinn þrá um að vera álitið mikilmenni sem er dáð af eigin þjóð. Hann er einnig haldinn þeirri löngun að vera reglulega í kastljósinu eins og umsögn hans um voðaverkin í Úkraínu ber glöggt dæmi um. Davíð Oddsson er annar stjórnmálamaður með hraustlegt, en óraunsætt, sjálfsálit.

Muna ekki allir eftir því þegar Davíð, sem seðlabankastjóri, vildi þiggja erlent lán frá Pútín í miðju fjármálahruninu. Þessi sami Davíð neitaði síðan að yfirgefa Seðlabankann eftir að hafa gefið útrásarvíkingunum gjaldeyrisforða landsins. Þurfti landið í kjölsogið að leggjast inn á gjörgæslu  Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Davíð taldi sig alveg ómissandi því hann nyti svo mikils trausts, sem eftir allt saman náði ekki út fyrir hans eigið svefnherbergi. Bera þurfti hann nauðugan út úr Seðlabankanum. Það hindraði hann samt ekki í því að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands þegar Guðni var kosinn.   

Þetta og miklu fleira rifjaðist upp fyrir mér þegar ég hlustaði á Katrínu Jak í Kastljósi í fyrrakvöld. Þar þvældi hún og ruglaði um Íslandsbankasöluna. Eftir viðtalið liggur fyrir að Katrín Jak er tilbúin að gera hvað sem er til að bjarga pólitísku lífi Bjarna Ben og ríkisstjórnarinnar. Framgangan í fyrrakvöld varpaði einnig afar skýru ljósi á mótþróaröskun forsætisráðherra, sem hún sjálf segist glíma við.

Þeir sem kljást við þannig röskun geta ekki viðurkennt mistök. Ef forsætisráðherra myndi horfa hlutlægt á Íslandsbankasöluna þá væri hún nú þegar búin að kalla eftir afsögn fjármálaráðherra og boða til nýrra kosninga. Nægar upplýsingar eru framkomnar til að réttlæta ákvörðunina. Forsætisráðherra getur því miður ekki horft á staðreyndir málsins hlutlaust og komist að heilbrigðri niðurstöðu vegna eigin mótþróa. Háir hún því harða innri baráttu gegn því að viðurkenna hið augljósa. Að það hafi verið dómgreindarleysi að telja pólitískt mögulegt að vera í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum án þess að það myndi leiða til alvarlegrar spillingar og siðrofs.  

Allir biðleikir forsætisráðherra í málinu láta hana líta ver og ver út. Hún má þó eiga það að nýju föt keisarans, sem hún fékk að láni frá Þjóðminjasafni Dana, klæða ráðherrann vel. Sjálfsblekkingin er nakin og það er í anda gagnsæis, sem ráðherranum er tíðrætt um í eigin nauðvörn.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: