- Advertisement -

Nýjustu hagtölur ekki hughreystandi, enn hærri vextir yfirvofandi?

Jóhann Þorvarðarson:

Þetta sem ég nefni „að óbreyttu“ á einnig við óstjórn ríkisstjórnar Katrínar Jak, sem safnar skuldum og rekur ríkisbúið með þensluhvetjandi halla. Á sama tíma fleytir lítill hluti þjóðarinnar rjómann ofan af auðlindum landsins þegar not er fyrir hann í ríkissjóði.

Nýjustu hagtölur Bandaríkjanna eru ekki hughreystandi í verðbólgulegu tilliti. Smásala jókst í janúar um 3 prósent á sama tíma og markaðurinn var með væntingar um 1,8 prósent vöxt. Horft yfir langtíma leitnilínur þá er 3 prósent aukning langt yfir norminu og ef sala á nýjum bílum er tekin út fyrir sviga þá birtist okkur jafnvel verri mynd. Smásalan jókst þá um 2,3 prósent þegar væntingar voru um 0,8 prósent söluvöxt. Bandarískir neytendur eru augljóslega í miklu eyðslustuði, sem aftur örvar verðbólguna. Í samræmi við þetta þá söfnuðust birgðir fyrirtækja minna upp en ráð var gert fyrir í síðasta mánuði.

Framleiðsluverð bandarískra fyrirtækja stráði síðan meira salti í verðbólgusárið, en það hækkaði um 0,7 prósent í janúar þegar vonir voru bundnar við ris upp á 0,4 prósent. Þetta er einnig í efri kanti þess sem við sjáum á langtíma stefnulínum. Og ef við kippum matvöru og orkugjöfum út þá hækkuðu verðin um 0,5 prósent í janúar þegar hagfræðingar töldu að kostnaðurinn myndi vaxa um 0,3 prósent. Eins og áður þá er hækkunin komin yfir efri kannt langtíma lína.

Ofangreind þróunin kemur ofan í sjóðandi heitan vinnumarkaðinn þar sem nýráðningar í janúar voru langt umfram væntingar og yfir öllum langtíma meðaltölum. Ávöxtunarkrafa 10 ára ríkisskuldabréfa helstu hagkerfa heimsins brugðust við með nýrri norðurleið. Stefnir hún að óbreyttu á að jafna toppinn frá því í haust þegar Liz Truss var forsætisráðherra Bretlands í örskamman tíma. Fyrir þá sem ekki muna þá lagði fjármálaráðherra hennar, Kwasi Kwarteng, fram glórulausa hag- og fjármálastefnu og hrökklaðist hún úr embætti með sjaldséðri skömm. Þrátt fyrir það þá taldi Morgunblaðið að stefna hennar væri til eftirbreytni. Dómgreindin á þeim bæ er alltaf söm við sig.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta hefur bein áhrif á ákvarðanir Seðlabanka Íslands…

Það sem gerist í Bandaríkjunum teymir veröldina áfram og eru þetta því afar slæm tíðindi fyrir Ísland ef áframhaldið næstu mánuði verður sambærilegt. Seðlabanki Bandaríkjanna er líklega knúinn til að hækka vexti enn hraðar en hann gerði á síðasta fundi sínum. Bankinn batt vonir við að 1-3 kvartil hækkanir myndu koma böndum á vandann, en ég er hræddur um að hann þurfi að grípa aftur til stórtækari aðgerða.

Þetta hefur bein áhrif á ákvarðanir Seðlabanka Íslands, en sjálfur hef ég um langa hríð metið það svo að verðbólga á Íslandi fari í 11-12 prósent. Ef sá múr fellur þá er ég farinn að sjá í opið geðið á verðbólguþakinu frá árinu 2008 eða 18 prósent verðbólgu að óbreyttu. Á sama tíma þá hef ég sagt að stýrivextir stefni í 10 prósentin. Þetta sem ég nefni „að óbreyttu“ á einnig við óstjórn ríkisstjórnar Katrínar Jak, sem safnar skuldum og rekur ríkisbúið með þensluhvetjandi halla. Á sama tíma fleytir lítill hluti þjóðarinnar rjómann ofan af auðlindum landsins þegar not er fyrir hann í ríkissjóði.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: