- Advertisement -

Nýtt eigið fé beint á áramótabrennuna

Með þessu áframhaldi þá er enn eitt hlutafjárútboðið í farvatninu í vetur eða vor.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Nýtt hlutafjárútboð Icelandair skilaði tilætluðum árangri. Náðist að safna tuttugu og þremur milljörðum króna og umfram eftirspurn var til staðar. Síðan hafa sextíu milljarðar fengist í formi bóta og greiðslufrests frá lánardrottnum. Mér reiknast til að tólf milljarðar séu beinharðir dollarar frá Boeing. Þá komu fimm milljarðar inn við sölu á stórum hlut í hótelkeðjunni og fyrir voru tuttugu og einn milljarð í sjóði í lok júní. Að lokum fengust þrír milljarðar króna í nýjum lánum frá almenningi í gegnum ríkisbankana. Samtals gera þetta fjörutíu og þrjá milljarða króna í lausafé nú í lok mánaðar eða þar um bil.

Mánaðarlegt tap fyrirtækisins á fyrstu sex mánuðum ársins samkvæmt milliuppgjöri var hálfur þrettándi milljarður króna. Ef talan er trúverðug og ekki verður snar umsnúningur á efnahagslegum afleiðingum kórónu númer nítján þá má reikna til að sjóðstaðan fleyti fyrirtækinu fram að næstu áramótabrennu. Síðan er það almenningur, en Alþingi samþykkti að ábyrgjast fimmtán milljarða lánalínu. Hún dugar í rúmlega mánuð og þá er Þorramaturinn kominn í búðirnar.

Verum sanngjörn, fyrirtækið hefur skorið niður breytilegan kostnað, en málið er bara að flugfélög eru þannig fyrirtæki að fastur kostnaður er afar þungur. Sama og engin er að kaupa flugvélar í dag og óhægt að losa um fastan kostnað næstu misserin. Samantekið þá gæti sjóðurinn fleytt Icelandair fram á vor, en þá styttist í að greiðslufrestur lánardrottna renni út. Með þessu áframhaldi þá er enn eitt hlutafjárútboðið í farvatninu í vetur eða vor. Það er þá þriðja útboðið á 2-3 árum.

Hér hafa forsvarsmenn fyrirtækisins sýnt af sér ófagmannlega framgöngu.

Með allt þetta í huga þá er furðulegt að stjórnendur og stjórn hafi ekki kallað til bráðafundar hjá hluthöfum og samþykkt að taka einnig við umfram eftirspurn sem var í boði. Þá beinist athyglin að Ballerínunni sem keypti WOW air. Hún bauð fram sjö milljarða króna, en því var hafnað án samtals um hverjar hennar hugmyndir eru og hvert hennar bakland í raun er. Það segir okkur að forráðamenn Icelandair eru að glíma við fordóm gagnvart ballettdansaranum og aðilum sem ekki eru innmúraðir. Hér var ekki hugsað um hagsmuni Icelandair né reynt að draga úr líkindum á að ríkisábyrgðin verði nýtt. Nei, þetta er íslenskt valdatafl um að þóknanlegir aðilar eigi ráðandi hlut í Icelandair. Hér hafa forsvarsmenn fyrirtækisins sýnt af sér ófagmannlega framgöngu. Almannahagsmunum var fórnað og ákallið um nýtt fólk í brúnna verður sífellt háværara.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: