- Advertisement -

Óboðleg og öfugsnúin skrif

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Með undirróðri græðgisafla var heildarhagsmunum fórnað fyrir hagsmuni mjög lítils minnihluta.

Ótrúlegt að fylgjast með skrifum óábyrgra sérhagsmunablaða, Fréttablaðsins og Morgunblaðsins, um sóttvarnir. Telja sóttvarnir ekki í samræmi við tilefnið vegna þess að bóluefnin sum hver veiti takmarkaða vörn og að enginn ótímabær dauðdagi hafi enn komið upp í fjórðu bylgjunni. Því er krafist í nafni óskilgreinds frelsis að sóttvarnir verði afnumdar. Snáparnir sem slá á takkaborðið í áróðri blaðanna hafa aftur á móti alveg gleymt að áður en óheftur innflutningur deltaveirunnar var heimilaður í lok júní hafi daglegt líf á Íslandi verið frjálst, án takmarkana. Ferðamenn gátu farið yfir landamærin og athafnað sig að vild eftir neikvæða niðurstöður landamæraskimana. Þá buggju landsmenn við þetta óskilgreinda frelsi í sátt við íslenskar vættir. Í dag þá er Ísland á válista bandarískra yfirvalda og rauðmerkt hjá Sóttvarnarstofnun Evrópu. Ekki laðar það ferðamenn til landsins. Augljóst er að hið meinta fullkomna frelsi er ekki til góðs við núverandi aðstæður.

Vegna sérhagsmunagæslu ferðaþjónustunnar sem taldi ekki nema 8 prósent af umfangi hagkerfisins árið 2019 og gegn vilja 92 prósents landsmanna um traustar sóttvarnir á landamærum þá voru girðingarnar teknar niður. Þá var sko ekkert smá gaman hjá ráðherrum landsins. Með undirróðri græðgisafla var heildarhagsmunum fórnað fyrir hagsmuni mjög lítils minnihluta. Og það þrátt fyrir viðvaranir lækna og vísindamanna veraldar að sú aðgerð væri arfavitlaus. Nei, takkaborðssnáparnir vita þetta allt miklu betur. Eða þangað til þeir veikjast sjálfir alvarlega og komast ekki inn á yfirfull sjúkrahúsin.

Nú er útlitið bara ekki vænlegt. Meira er að gera innan ferðaþjónustunnar, en aðrir hlutar hagkerfisins þurfa að grípa til dýrra sóttvarna Jafnvel loka starfsemi tímabundið eins og á sér nú stað. Þetta á bæði við um einkageirann og hið opinbera. Samtals getur þessi þróun hæglega dregið úr efnahagsumsvifum sem nemur mun stærri hlut en auknar tekjur af ferðaþjónustu. Þannig að þegar upp er staðið þá er hinn efnahagslegi ávinningur af óskilgreindu frelsi blaðanna minni en núll. Svo hafa þessi óábyrgu blöð aldrei fengist til að skrifa um hvaða verðmiða á að setja á góða heilsu þjóðarinnar. Já, meðan ég man hvað kostar eitt mannslíf?       

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: