- Advertisement -

Óburðugur þankagangur fjármálaráðherra

Gera verður þá kröfu til ráðherra að þeir sleppi masi og byggi skilaboð sín til þjóðarinnar á staðreyndum.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Í viðtali hjá Kjarnanum sagði Bjarni Ben fjármálaráðherra orðrétt „Ef eitthvað er í mínum huga þá hefur forskot Íslands í alþjóðlegri samkeppni vaxið við þessa atburði“. Hann réttlætti þessa rakalausu yfirlýsingu með því að segja að í stórborgum sé meiri smithætta í neðanjarðarlestum en að vera á Íslandi. Hann virðist gleyma að fólk úr stórborgum ferðast til Íslands og aðrir millilenda í stórborgum áður en til landsins er komið. Þröngt sitja síðan sáttir um borð í flugvélum og farangri er staflað í kös neðan þilja af allskonar fólki. Þannig að flugvélar eru ekki betri kostur en farþegalestar hvað smithættu varðar. Svo á ráðherrann að vita að smit berst ekki einungis milli manna heldur einnig með snertingu við hluti.

Ágætt er að rifja upp að veiran þrífst best á köldum svæðum samkvæmt Alþjóða Heilbrigðisstofnuninni. Þannig að út frá óstyrkum þankagangi ráðherrans þá ætti samkeppnisforskot sólarlanda og heitra svæða að hafa aukist til muna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Staðreyndin er að alþjóðlegur ferðaiðnaður fer ekki af stað fyrr en jarðarbúar hafa myndað nægilegt hjarðónæmi eða að veiran hverfi af sjálfsdáðum. Íslendingar hafa ekki náð hjarðónæminu heldur þvert á móti. Þannig að það er tvíbent að opna landamæri Íslands um miðjan júní og leika sér með líf og heilsu fólks.

Þankar ráðherrans er innantóm óskhyggja. Gera verður þá kröfu til ráðherra að þeir sleppi masi og byggi skilaboð sín til þjóðarinnar á staðreyndum. Ef ætlunin er að taka sénsa með líf og heilsu fólks vegna undanlátssemi gagnvart ferðaþjónustunni þá er eðlilegt að upplýst verði hvað ríkisstjórnin er tilbúin að fórna mörgum mannslífum í þjónkun sinni.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: