- Advertisement -

Ódæði

Koma verður í veg fyrir að fyrirsát Hæstaréttar um stjórnarskrána gangi upp.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar áhugaverða grein á Miðjuna um nýlegan dóm Hæstaréttar samanber þetta hér Furðulegur dómur. Rétturinn telur að Davíð Þór Björgvinsson og Jóhannes Sigurðsson dómarar í ákveðnu Landsréttarmáli séu hæfir til að dæma aftur við endurupptöku málsins. Þetta þykir ótækt þar sem þeir voru gerðir afturreka með dóm sinn vegna brota á lagaákvæði um milliliðalausa sönnunarfærsla fyrir Landsrétti. Vinnubrögðin stóðu þannig í vegi fyrir réttlátri málsmeðferð og jafnri stöðu málsaðila.

Til viðbótar réttlátri málsmeðferð þá mega dómarar ekki tengjast málsaðilum né vera hlutdrægir gagnvart ákæruefninu. Aðrir dómarar verða því að dæma í enduruppteknum málum þegar brotalöm málsmeðferðar hefur skipt sköpum fyrir úrslit máls. Áhyggjur löggjafans beindist að hugsanlegum fordómi dómara. Að þeir hafi gert upp hug sinn þegar kemur að endurupptökunni vegna aðkomu að hinni ólöglegu málsmeðferð. Ógerlegt er fyrir dómara að núllstilla viðhorf sitt því enginn er „reset“ takkinn eins og tíðkast með stýrikerfi tölva. Hér má enginn vafi vera á ferð og ber að kalla til nýja dómara skilyrðis- og vafningalaust við endurupptöku mála. Nýi Hæstiréttur er þessu ósammála enda telur rétturinn að Davíð Þór og Jóhannes séu heljarmenni með ímyndaðan „reset“ takka í heilabúinu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er undarlegt að skoða nafnalista dómara sem felldu hinn nýja Hæstaréttardóm.

Krafan um réttláta málsmeðferð fyrir hlutlausum dómstóli er meitluð í  stjórnarskrána og dæmdi gamli Hæstiréttur í samræmi við hana. Dómur nýja Hæstaréttar inniheldur því ný skilaboð án þess að baki liggi haldbær rök fyrir utan hinn ímyndaða „reset“ takka dómara. Nýi dómurinn vegur þannig að stjórnarskránni og kallar á að Alþingi grípi inn í. Koma verður í veg fyrir að fyrirsát Hæstaréttar um stjórnarskrána gangi upp.  

Það er undarlegt að skoða nafnalista dómara sem felldu hinn nýja Hæstaréttardóm. Þar á  meðal er að finna nafn Sigurðar Tómasar Magnússonar. Hann úrskurðaði nýlega í Hæstarétti í máli sem tengdist hans eigin atvinnuveitanda, Háskólanum í Reykjavík. Taldi sig ekki vanhæfan eða mögulega hlutdrægan eins rugluð og sú afstaða er. Hann var einnig afturreka og rétturinn felldi nýjan úrskurð. Hvar var „reset“ takki Sigurðar Tómasar? Svo er að finna nafn Benedikts Bogasonar sem virðist haldinn lagalesblindu samanber málarekstur hans gegn Jóni Steinari. Var eitthvað móðgaður vegna málefnalegra bókaskrifta Jóns. Frekar en að svara Jóni á málefnalegum nótum þá kaus hann sandkassann og gjörtapaði á öllum dómstigum. Eitthvað er hann líka blindur á stjórnarskrána miðað við nýja dóminn.

Síðast en ekki síst þá er að finna nafn Bjargar Thorarensen á listanum. Hún er innvígð og innmúruð í ættflokk dómara landsins. Björg er gift Markúsi Sigurbjörnssyni fyrrum dómara við Hæstarétt til 25 ára. Hann hefur verið vændur um að taka þátt í því að handvelja dómara við Hæstarétt sem voru honum þóknanlegir í einhverju leynimakki með valdhöfum. Það er því ekki að furða að hún átti sig ekki á innihaldi orðanna hlutleysi og óhæði. Samantekið þá kemur niðurstaða Hæstaréttar kannski ekki á óvart, en hún er samt sem áður ógnvænleg. Hún vegur að einni af grunnstoðum samfélagsins. Augljóst er að dómstólasirkusinn er hvergi nærri búinn eftir brambolt síðustu ára.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: