Offjárfesting í heilbrigðismálum

Athygli vakti þegar Tinna Laufey Ásgeirsdóttir heilsuhagfræðingur sagði, og sýndi fram á, að við Íslendingar ættum ekki minni tækjabúnað í heilbrigðismálum en aðrar þjóðir. Hitt var annað að tækin okkar voru meira utan sjúkrahúsa en gerist hjá öðrum þjóðum.

Þetta kom fram í viðtali við Tinnu Laufeyju í Sprengisandi í nóvember 2013.

Sagan virðist vera að enduraka sig nú. Kröftunum er dreift. Á Alþingi í gær töluðu þau Katrín Jakobsdóttir og Óttarr Proppé um aðra leiðir til að stytta biðlistana, það er aðrar leiðir en að senda sjúklinga utan eða í Ármúlann. Þar sem er jú nýtt sjúkrahús með öllu sem til þarf til að annast liðaskiptaaðgerðir.

Sem þruma úr heiðskýru lofti komu stjórnmálamennirnir með nýjar lausnir. Við, það er íslenska þjóðin, eigum tvö sjúkrahús þar sem hægt er að gera aðgerðirnar. Annað þeirra er á Akureyri og hitt á Akranesi. Það er sniðugt að einhver átti sig á þessu.

„Einfaldasta leiðin til að stytta biðlistana er að styðja við þau sjúkrahús sem ráða við þær aðgerðir þar sem langur biðlisti er fyrir hendi,“ sagði Katrín, og benti á Akureyri og Akranes.

„…við erum að horfa á sjúkrahúsið á Akureyri og sjúkrahúsið á Akranesi þ.e. Heilbrigðisstofnun Vesturlands og við erum einnig að horfa á möguleika til þess að nýta aðstöðu og mannskap á öðrum heilbrigðisstofnunum með stuðningi Landspítalans ef til þarf,“ sagði Óttarr.

Sé þetta allt rétt og satt, blasir þá við að fjárfestingin við Ármúla sé um of? Að við hafi bæst sjúkrahús sem getur sinnt því sama og vannýtt sjúkrahús geta gert.

-sme