- Advertisement -

Ofureymd Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks

Ég bind þó vonir við að Kristrún Frostadóttir og Gunnar Smári Egilsson muni opna umræðuna upp á gátt.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Alla öldina hefur hugmyndafræði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks stjórnað landinu ef frá eru talin fjögur ár eftir fjármálahrunið. Þá tók Velferðarstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur við og hóf endurreisn. Það er því áhugavert að skoða hvernig landinu hefur farnað frá aldamótum.

Bandaríski hagfræðingurinn Arthur Okun kom fram með eymdarvísitölu á síðustu öld sem samanstóð af summu atvinnuleysis og verðbólgu, hvoru tveggja mælt í prósentustigum. Í þessari grein hérna Bjarni Ben fékk bara að fara með bullum bull þá sýndi ég ykkur hver staðan er á Íslandi á mælikvarða eymdarvísitölunnar. Núna birti ég áður óséða  „Ofur-eymdarvísitölu“ þar sem ég betrumbæti vísitölu Okuns. Ég bæti raunvöxtum landsins ofan á vísitölu Okuns og nefni hana „Ofur-eymdarvísitöluna samanber myndin sem fylgir. Hagfræðingurinn Robert Barro fór svipaða leið um síðustu aldamót þegar hann bætti nafnvöxtum við ásamt annarri stærð sem kemur óbeint fram í atvinnuleysi, verðbólgu og raunvöxtum. Ég sleppi því þessari fjórðu stærð til að forðast mögulega tvítalningu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fyrstu fjögur árin þá lækkar vísitalan nokkuð, en síðan verður mikill umsnúningur til hins verra. Vísitalan rýkur upp og toppar árið 2008 þegar fjármálahrunið brestur á. Í aðdragandanum ber hæst einkavinavæðing Landsbanka og Búnaðarbanka árið 2003. Hagkerfið var græðgisvætt. Það er eins og við manninn mælt, Ofur-eymdarvísitalan rauk upp. Velferðarstjórn Jóhönnu Sig tekur síðan við og er stjórnartímabil hennar afmarkað á myndinni með tveimur svörtum lóðréttum línum. Ofur-eymdarvísitalan byrjar að falla hratt og nær lággildi sínu árið 2017, en núverandi ríkisstjórn Katrínar Jak tók við völdum undir lok ársins.

Gunnar Smári og Kristrún Frostadóttir.

Allar götur síðan þá hefur Ofur-eymdarvísitalan stigið og er komin á nákvæmlegu sömu slóðir og í upphafi aldarinnar. Á sama tíma er ný banka einkavæðing hafin án þess að spyrja þjóðina álits. Sporin hræða og skiptir engu þó því sé haldið fram að lagaramminn sé traustari en áður var. Græðgi er eins og fíkn. Hún þekkir engin takmörk og er eldklár að komast á svig við allar reglur og Kínamúra.

ÞRÓUNIN ER AFSPRENGI RANGRAR HAGSTJÓRNAR.

Ofur-eymdarvísitalan grípur vel utan um heilbrigði hagkerfisins og þær aðstæður sem þjóðin býr við í efnahagslegu tilliti. Allt fram undir lok ársins 2017 þá var það verðbólga og raunvextir sem var uppistaða vísitölunnar. Síðan núverandi ríkisstjórn tók við þá hefur þunginn færst yfir á atvinnuleysið og verðbólguna. Þessir tveir þættir vega meira en 90 prósent af Ofur-eymdarvísitölunni í dag. Þróunin er afsprengi rangrar hagstjórnar. Á því er enginn vafi!

Fram hjá því verður ekki litið að hugmyndafræði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í efnahagsmálum er komin á leiðarenda, hún er örend. Ofur-eymdarvísitalan lýgur engu! Hér vegur þungt að ríkjandi efnahagsstefna færir einkageiranum einkaleyfi til atvinnusköpunar. Við þær aðstæður sem uppi eru í dag þá tekur það of langa tíma að skapa verðmæt störf og vinna á atvinnuleysinu. Þess vegna getur hið opinbera ekki verið aðgerðarlaust á hliðarlínunni þegar kemur að atvinnusköpun.

Ég sakna þess að enginn í stjórnarandstöðunni treystir sér að taka slaginn og ræða hagstjórnina. Ég bind þó vonir við að Kristrún Frostadóttir og Gunnar Smári Egilsson muni opna umræðuna upp á gátt því komandi kosningar munu snúast í grunninn um efnahagsmál og spillingu. Já, og líka um stjórnarskránna sem þjóðin kaus sér en hefur ekki fengið.     


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: