
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Tölurnar ljúga engu og það sorglega er að núverandi valdhafar, bæði hjá Seðlabanka og í ríkisstjórn, ráða ekki við verkefnið að stjórna þjóðarskútunni á farsælan máta.

Eftir skraf og ráðagerð við Þorvald Gylfason þá birti ég á síðasta ári í fyrsta skipti í sögunni vísitölu ofureymdar, sem er betrumbætt útgáfa af eymdarvísitölu Arthur Okuns. Til nánari útlistunar þá vísa ég í þessa grein hér „Ofureymd Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks“. Vísitala ofureymdar er samtala atvinnuleysis, verðbólgu og raunvaxta (systkinin þrjú) og grípur hún vel utan um heilbrigði hagkerfis. Hærri mæling, en hjá samkeppnislöndum, segir okkur að íslenska hagkerfið sé í verra standi. Eða að þjóðin búi við verri aðstæður í efnahagslegu tilliti. Því meiri sem munurinn er því lasnara er hagkerfið og staða almennings verri. Í samhenginu þá er eftirsóknarvert að vera með lága mælingu eins og Danir samanber myndin.
Myndin sýnir versnandi aðstæður íslenskra heimila og fyrirtækja í samanburði við frændur okkar í Danmörku og Noregi. Áðurnefnd systkin eru öll með veglegt framlag til eymdarvísitölunnar á Íslandi þó framlag atvinnuleysis hafi minnkað mikið frá fyrra ári samhliða auknu hjarðónæmi og tilslakana í sóttvörnum. Verðbólga í febrúar er komin í 6,2 prósent og var mánaðarleg hækkun hennar sú mesta síðan snemma árs 2012 eða 1,16 prósent. Ólíkt öðrum löndum þá hefur Seðlabanki Íslands gripið til stórstígra stýrivaxtahækkana vegna taumlausrar verðbólgu. Sárveikt hagkerfið er afsprengi rangrar hagstjórnar bæði hjá Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnum Katrínar Jakobsdóttur.
Tölurnar ljúga engu og það sorglega er að núverandi valdhafar, bæði hjá Seðlabanka og í ríkisstjórn, ráða ekki við verkefnið að stjórna þjóðarskútunni á farsælan máta. Ofureymdarvísitalan hefur verið á jafnri siglingu upp á við síðan núverandi stjórnarflokkar tóku við seint á árinu 2017. Hefur hún aukist úr 6,4 prósentum í 8 prósent eða um tæp 11 prósent. Það er mikil breyting til hins verra og ekkert er í sjónmáli að vöxtur hennar sé að stoppa.