- Advertisement -

Og hvar á þetta niðurbrot að enda?

Spennandi átak sem snýr að því að grafa undan launakjörum í landinu.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Það er skuggalegt að fylgjast með hvernig flugfélagið Play, með aðstoð Samtaka atvinnulífsins og tveggja lífeyrissjóða, er byrjað að grafa undan stoðum samfélagsins. Laun flugmanna og annarra starfsmanna um borð í vélum Play er undir lágmarkslaunum í landinu. Þetta byggir á kjarasamningi við gult stéttarfélag, sem stjórnað er að flugfélaginu sjálfu. Sem sagt Play semur við sjálfan sig í gegnum leppi hins gula stéttarfélags. Launin duga ekki til framfærslu á Íslandi. Á sama tíma þá segir forstjóri félagsins Birgir Jónsson að hann hafi aldrei tekið þátt í jafn spennandi verkefni. Spennandi átak sem snýr að því að grafa undan launakjörum í landinu.

Verði þetta látið viðgangast og opinberir eftirlitsaðilar: Vinnumálastofnun og ráðuneyti félagsmála, klikka á hlutverki sínu þá er þetta bara upphafið að víðtæku niðurbroti íslensks samfélags. Næstir í röðinni eru bifreiðarstjórar langferðabíla, starfsmenn veitingahúsa, rafvirkjar, smiðir og aðrir iðnaðarmenn. Svona mun þetta halda áfram þar til þetta nær til annarra grunnstoða þjóðarinnar. Þar má til dæmis nefna skóla- og heilbrigðiskerfið. Á endanum þá leiðir þetta til glundroða.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Samheldni þjóðarinnar hverfur, átök verða um allt. Ekki skal vanmetið hvert þessi upphafsskref Play og gula stéttarfélagsins geta leitt, sem Birgir Jónsson er svona ánægður með. Að Birta lífeyrissjóður og Lífeyrissjóðurinn lífsverk séu meðal hluthafa í Play sýnir að siðrof hefur orðið milli stjórnenda sjóðanna og félagsmanna. Það hlýtur að kalla á sérstaka skoðun. Nú er framkvæmdastjóri Birtu, Ólafur Sigurðsson, tengdur tveimur ógæfumálum. Hitt er viðskipti lífeyrissjóðsins við hugbúnaðarfyrirtækið Init, samanber ítarleg umfjöllun Kveiks um málið. Þangað hafa iðgjöld sjóðfélaga runnið ótæpilega.

Neytendur geta brugðist við með beinum hætti með því að sleppa að gera viðskipti við Play. Nægt framboð er af flugsætum á samkeppnishæfu verði. Á meðan á öllu þessu stendur þá steinþegja Vinstri græn og Framsókn.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: