- Advertisement -

Ógnar hjarðhegðun og einsleitni þjóðarörygginu og almannahagsmunum?

Jóhann Þorvarðarson:

Skipan peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands fær falleinkunn miðað við þau sjónarmið sem sett eru fram í umræddri grein. Í henni sitja þrír miðaldra hvítir karlar, tvær hvítar konur og öll eru íslensk

Í lok janúar sagði ég ykkur frá því að hjarðhegðun eða einsleitni meðal hagfræðinga hér heima og erlendis væri sjálfstætt efnahagslegt vandamál, samanber grein mín Hjarðhegðun af dýrari gerðinni.

Hjarðhegðun veldur nefnilega því að skapandi hugsun og víðsýni eru jaðarsett af ríkjandi viðhorfum meirihlutans. Aðilar, sem temja sér fjölbreytilega hugsun og víðsýni við úrlausn mála eru jafnvel uppnefndir og útskúfaðir. Ósveigjanleiki þeirra sem fylgja viðteknum skoðunum á oft rætur að rekja til óöryggis aðila gagnvart nýjum sjónarhornum, eðlis að verja hið gamalgróna og sérhagsmuna.

Áráttan að komast þurfi að samdóma niðurstöðu eða áliti finnur sér farveg víðar en innan fjármálageirans. Þar má til dæmis nefna Hæstarétt sem telur eftirsóknarvert að tefla fram samdóma dómsniðurstöðu. Núverandi forseti Hæstaréttar hefur meira að segja látið hafa eftir sér í blaðaviðtali að rétturinn leggi sig fram um að ná sameiginlegri niðurstöðu í málum. Þetta táknar að sá sem er í minnihluta er togaður og teygður þar til álit hans nálgast mat meirihlutans. Einnig er mögulegt að viðkomandi dómari eða dómarar bakki hreinlega frá eigin afstöðu sökum félagslegs uggs gagnvart meðdómurum. Við þessar aðstæður þá eru sératkvæði hreinlega undir árás og veldur því að dómarar hætta að fylgja eigin sannfæringu. Dómafordæmi Hæstaréttar geta því orðið útvötnuð og taka ekki á því ef löggjafinn hafi gert mistök við lagasetningu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hegðunin er óbermi og vinnur gegn almannahagsmunum.

Af hverju rifja ég þetta upp? Jú, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn birti athyglisverða grein þann sjöunda febrúar eftir tvo prófessora við Dartmouth háskóla í Bandaríkjunum. Umrædd grein er hluti af mars hefti sjóðsins í ritröðinni IMF Finance & Development. Greinin ber heitið Diverse View in Monetary Policy. Annar höfunda greinarinnar er þekktur hagfræðingur, David G. Blanchflower, og átti hann sæti í peningastefnunefnd breska seðlabankans á árunum 2006 til 2009. Samkvæmt fundargerðum bankans og Wikipedia þá sat hann þrjátíu og sex fundi og greiddi átján sinnum atkvæði gegn meirihlutaáliti nefndarinnar. Níu fundi í röð greiddi hann atkvæði um að halda stýrivöxtum óbreyttum þegar aðrir nefndarmenn greiddu atkvæði með hækkun vaxta. Frá mars 2007 til mars 2009 þá mælti Blanchflower með lækkun stýrivaxta. Hann varð fyrir talsverðri gagnrýni að fylgja ekki meirihlutanum ef ég man umfjallanir réttilega.Það var ekki fyrr en fjármálahrunið skall á með formlegum hætti þann áttunda október 2008 að allir nefndarmenn peningastefnunefndar greiddu loks atkvæði með lækkun stýrivaxta. Segja má að Blanchflower hafi verið með jaðarskoðun, sem síðar reyndist vera laukrétt. Hann sá hlutina öðruvísi, en skoðanir hans fengu ekki rými í umræðunni. Varð hann jafnvel fyrir ósmekklegum athugasemdum eins og til dæmis af hverju hann notaðist við fjarfundarbúnað í stað þess að mæta í eigin persónu. Hann þurfti einnig að svara fyrir af hverju hann væri ekki búsettur á Bretlandseyjum og þá helst í námunda við London. Þröngsýnin var yfirgengileg gagnvart Blanchflower.

Annað dæmi er þegar doktor Bergsveinn Birgisson (rithöfundur) sýndi fram á að seðlabankastjóri hefði stolið efni úr bók sinni Leitin að svarta Víkingnum. Þá reis háskólasamfélagið við Melavelli upp og réðst að Bergsveini með lúalegum hætti. Að baki árásunum voru bæði núverandi og fyrrverandi prófessorar og sjálfur rektor skólans. Þegar málið er skoðað heildstætt þá verður ekki betur séð en að öfund, klíkukennd og vörn fyrir gömul sjónarmið hafi kveikt bál í prófessorunum því Bergsveinn er utanaðkomandi. Hann á því samkvæmt þessu ekki tilkall til tjáningar að mati árásaraðilanna. Hegðunin er óbermi og vinnur gegn almannahagsmunum.

Í áðurnefndri grein þá fjalla prófessorarnir tveir um skaðsemi þess að hlusta ekki á það sem ég nefndi jaðarskoðun og að óhyggilegt sé að peningastefnunefndir séu skipaðar af einsleitum hópi fólks. Í þessu samhengi þá nefna prófessorarnir að mikilvægt sé að nefndarmenn endurspegli ekki aðeins eina starfsstétt, einn menningarheim, einn uppruna og fábreytilegan bakgrunn. Einnig vara höfundarnir við því að peningastefnunefndir séu skipaðar aðilum sem heyra beint undir seðlabankastjóra. Slík skipan geti heft tjáningu aðilanna því þeir eiga mikið undir því að vera í náðinni hjá stjóranum. Til nánari skoðunar þá hvet ég lesendur til að þefa greinina uppi á heimasíðu sjóðsins. Hún er stutt og á auðskiljanlegri ensku.

Skipan peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands fær falleinkunn miðað við þau sjónarmið sem sett eru fram í umræddri grein. Í henni sitja þrír miðaldra hvítir karlar, tvær hvítar konur og öll eru íslensk. Fjögur þeirra eru hagfræðimenntuð og einn er með einhverskonar viðskiptalögfræðinám að baki. Konurnar tvær eru síðan báðar með sérhæfingu á sviði vinnumarkaðar og tveir karlanna eiga sterkar rætur hjá hagfræðideild Háskóla Íslands og eru því úr sama mennta ranninum. Fjórir af fimm nefndarmönnum búa á Íslandi og á höfuðborgarsvæðinu.

Þrír nefndarmanna er yfirmenn hjá Seðlabanka Íslands þar sem tveir þeirra eiga mikið undir velþóknun seðlabankastjóra, sem jafnframt er formaður nefndarinnar. Í það minnst fjórir nefndarmanna eru með sterk pólitísk tengsl á Íslandi. Og ef ég teygi mig aðeins þá eru þau í raun öll með þekkt pólitísk tengsl. Ég gæti haldið áfram og nefnt einsleitni hvað trúarbrögð varðar og að öll nema einn hafi mikla akademíska tengingu og litla praktíska reynslu. Ég get síðan fært mig yfir í skipan fjármálastöðugleikanefndar bankans, en þar er einnig að finna óæskilega einsleitni.

Hann tekur síðan við formennsku í fjármálaeftirlitsnefnd þegar tilteknar ákvarðanir eru teknar.

Og ef við skoðum skipan bankaráðsins þá er formaðurinn prófessor við sömu hagfræðideildina. Þrír aðilar ráðsins eru með grjóthörð tengsl við Sjálfstæðisflokkinn. Og þar næst kemur enn annar hagfræðingurinn og síðan lögmaður frá LEX lögmannstofu (lögfræðistofa Sjálfstæðisflokksins). Að síðustu má nefna aðila sem er viðskiptahagfræðingur, sem starfaði hjá ýmsum gjaldþrota fjármálafyrirtækjum fyrir hrun.

Seðlabankastjóri er formaður peningastefnu- og fjármálastöðugleikanefnda. Hann tekur síðan við formennsku í fjármálaeftirlitsnefnd þegar tilteknar ákvarðanir eru teknar. Ef ég þekki þetta rétt þá er í farvatninu lagabreytingu sem færir honum alfarið formennsku í þessari nefnd. Hér er einum embættismanni færð gríðarleg völd og það eitt og sér er óæskilegt ef ekki hreinlega hættulegt þjóðarörygginu. Sá sem er núna seðlabankastjóri hefur sýnt að dómgreind hans er ístöðulítil, hvikul.

Ef endurheimta á trúverðugleika Seðlabanka Íslands þá verður að endurhugsa skipan nefndarmanna og opna rými fyrir fjölbreyttar og skapandi skoðanir. Einsleitnin er knýjandi vandamál í glímunni við verðbólguna. Ljóst er að skipanin gengur ekki upp því vænt verðbólga hefur ítrekað verið vanmetin af hálfu bankans. Sjálfur vil ég meina að það sé vegna hjarðhegðunar og einsleitninnar.

Til að bæta gráu ofan á svart þá ber skipan nefndarmanna þess augljóst merki að þröng pólitísk klíka ræður mönnuninni. Ástandið vegur klárlega að efnahagslegu þjóðaröryggi og ekki hægt að búa við ástandið ef við ætlum að taka okkur alvarlega sem þjóð. Seðlabankinn heyrir undir Katrínu Jakobsdóttur, sem þekkt er fyrir að viðurkenna aldrei mistök. Bankinn hefur gengið í gegnum miklar breytingar undir hennar forystu, sem nú dæmist mislukkuð þrátt fyrir nýlega já-manna skýrslu um annað. Tel ég því bráðnauðsynlegt að stjórnarandstaðan taki málið upp áður en það er um seinan.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: