- Advertisement -

Óhuggulegur boðskapur Framsóknarflokksins

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Afstaða Framsóknar er því miður bæði grunnhyggin og hættuleg. Ávarpar ekki grunnvandmálið, sem er úrelt skipulag hagkerfisins. Að skjóta sendiboðann breytir engu, orsakir verðbólgunnar hverfa ekki.

Eftir að formaður Framsóknarflokksins lýsti yfir að flokkurinn vildi breyta verðbólgumælingum steig Halla Signý Kristjánsdóttir þingmaður sama flokks í ræðustól Alþingis. Endurómaði hún skoðun formannsins. Sagði að það væri ekki vandamál að fikta með verðbólgumælingarnar séu landsmenn ósáttir við niðurstöðurnar. Látið er í skína að aðrar þjóðir hafi annan hátt á og nái þess vegna betri árangri í að halda niðri verðbólgu. Í þessu sambandi þá minntist formaðurinn sérstaklega á Svíþjóð og Kanada.

Afstaða Framsóknar er því miður bæði grunnhyggin og hættuleg. Ávarpar ekki grunnvandmálið, sem er úrelt skipulag hagkerfisins. Að skjóta sendiboðann breytir engu, orsakir verðbólgunnar hverfa ekki. Vísitala neysluverðs er bara eins og hver önnur tölfræðileg mæling. Í þessu samhengi má benda á að þegar einhver er ósáttur við eigin þyngd að þá dugar lítt að færa upphafsstöðu vigtarinnar niður fyrir núllið til að ná fram draumaþyngdinni. Það er blekking. Sama á við um ef taka á húsnæðisliðinn út úr verðmælingum.

Norðurlöndin eiga í samstarfi á sviði hagmælinga og leitast við að grípa utan alla þætti framfærslukostnaðar. Þar inn í er húsnæðiskostnaður enda á ferðinni stærsti útgjaldaliðurinn. Ítarleg og skipuleg upplýsingasöfnun fer fram í hverjum mánuði til að mæla verðbreytingar. Þetta er ein af mikilvægustu aðgerðum hagstjórnar. Neyslukarfan getur tekið breytingum ef tilteknar vörur úreldast og aðrar nýjar koma inn, sem endurspeglar betur neyslu heimila. Þar sem fólk hefur ekki hætt að búa í húsum þá þarf að taka tillit til breytinga á húsnæðiskostnaði. Síðan er körfunni ekki breytt ef tilteknir neysluliðir varpa óþægilegu ljósi á stöðu mála.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Framsókn…

… stendur einnig gegn aukinni samkeppni sem fengist með evrunni.

Sá þáttur sem fer í taugarnar á Framsóknarmönnum er húsnæðisliðurinn. Hann hefur hækkað mikið á öldinni vegna ákvarðana sem Framsókn stóð að í ríkisstjórn. Hér nægir að nefna röð ákvarðana sem vógu að félagslega húsnæðiskerfinu og breyttu Húsnæðisstofnun í mús. Við tóku græðgisöflin og þarf ekki að rifja söguna neitt frekar upp svo ný er hún. Framsókn hefur einnig staðið gegn evrunni þó það liggi fyrir að hún lagði grundvöllinn að stórbrotnum árangri Dana, Finna og Færeyinga í verðlagsmálum.

Vegna þess að formaður Framsóknar vísaði til Kanada þá skal það upplýst að Hagstofa Kanada leggur mikla áherslu á að mæla húsnæðisliðinn. Þar í landi bendir Hagstofan alveg sérstaklega á að verðbreyting á mjólk hafi miklu minni áhrif á framfærslufærni heimila, en dvöl í húsnæði.  

Framsókn stendur einnig gegn aukinni samkeppni sem fengist með evrunni. Þetta kristallaðist vel í veirufaraldrinum þegar formaður Framsóknar lýsti ítrekað yfir að flokkurinn vildi hækka tolla á matvæli og þar með einangra landið. Skerða viðskiptafrelsi. Allt sem nefnt er að ofan stuðlar að hærra verðlagi og dugar lítt fyrir Framsókn að skjóta sendiboðann. Þeim væri nær að endurskoða úrelta stefnu.

Í Danmörku þá hefur sami hátturinn verið hafður á síðan árið 1982 og er hússnæðisliðurinn svo sannarlega hluti af neysluverðsvísitölu Dana. Ólíkt Íslandi þá hafa Danir komið á skipulagi sem setur taumhald á græðgisöflin. Þak er sett á hve mikið má hækka húsaleigu og út frá hvaða viðmiðum. Sögulega séð þá er sterk fylgni á milli húsaleigu og húnæðisverðs. Ofan á þetta þá búa Danir ekki við verðtryggð lán. Eitthvað sem hægt er að breyta á Íslandi án þess að hringla með verðbólgumælingar. Halla Signý er einfaldlega að rugla saman orsök og afleiðingu þegar kemur að verðtryggðum lánum.  Samanlagt og með hjálp evrunnar, þá er húsnæðiskostnaður ekki áþján í Danmörku. Og Danir eru ekki þrælar lánarans.

Framsókn

Hagtölufalsanir er hættulegur leikur. Ríki sem það stunda enda í þjóðargjaldþroti.

Samræmd verðmæling evrusvæðisins er örlítið ólík því sem tíðkast á Norðurlöndunum, en húsnæðisliðurinn er til staðar í vísitölunni á tveimur stöðum. Það ætti ekki að koma neinum á óvart enda býr fólk á svæðinu í húsum, merkilegt nokk. Finnland er með evru og reiknar því út tvær gerðir neysluverðsvísitalna. Heilt yfir þá gáfu vísitölurnar 85 prósent sömu niðurstöðu samkvæmt nýjustu upplýsingum. Þannig að frávikið er ekki stórkostlegt, en hafa verður í huga að frávikið getur einnig farið í hina áttina.

Að ætla að falsa verðmælingar vegna þess að það er of sársaukafullt að horfast í augu við eigin óstjórn er ósæmilegt og óheiðarlegt. Gæði hagstjórnar og ástand hagkerfisins endurspeglast í verðbólgutölum. Það er því mikilvægt að vanda verðmælingar og grípa utan um alla liði sem létta buddu landsmanna. Hagtölufalsanir er hættulegur leikur. Ríki sem það stunda enda í þjóðargjaldþroti. Nægir þar að nefna örlög Sovétríkjanna sálugu, stöðu Grikklands fyrir rúmum áratug og ástandið í Tyrklandi í dag. Erdogan forsætisráðherra Tyrklands heldur að hann geti talað verðbólguna niður með því að birta falsaðar tölur, en hann uppsker bara hlátur landsmanna.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: