- Advertisement -

Óli Björn þingmaður með helbláa kúadellu!

Af hverju Óli Björn iðkar ekki það sem hann prédikar?

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Óli Björn þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir áhyggjuefni að hlutdeild hins opinbera í landsframleiðslunni hafi vaxið í 42% samanborið við 34% árið 1980. Ríkisstarfsmaðurinn hann Óli Björn sleppti alveg að spá í ástæðurnar þarna að baki og hvernig við stöndum í alþjóðlegum samanburði. Lét í það skína að það stefndi í ófremdarástand.

Þjóðfélagið í dag er gjörólíkt því sem var árið 1980 þegar þingmaðurinn sjálfur sótti nám við ríkisháskólann HÍ án þess að þurfa að borga sligandi námsgjöld fyrir. Sem dæmi þá hefur atvinnulífið (einkageirinn hans Óla Björns) kallað eftir starfsfólki með flóknari og meiri menntun en áður. Það kallar á dýrara skólakerfi. Atvinnulífið hefur einnig kallað eftir betra og stærra vegakerfi sem kostar skildinginn. Svo hefur atvinnulífið kallað á bætta aðstöðu til að taka á móti öllum ferðamönnunum hringinn um landið sem einkageirinn vill græða á.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nýjasta dæmið er ófreskjan á Bakka og talar hún sínu máli vafningalaust.

Já einkageirinn vill hitt og þetta. Ég læt vera að telja til alla niðurgreiddu innviðina fyrir stóriðjunnar hans Óla Björns sem kostað hafa hundruð milljarða sem koma á endanum úr vösum almennings. Nýjasta dæmið er ófreskjan á Bakka og talar hún sínu máli vafningalaust. Já, svo eru það öll dagheimilin fyrir litlu börnin vegna þess að báðir foreldrar þurfa að vinna úti. Einfaldur launaskammtur dugar ekki til framfærslu vegna lélegra launa sem vinirnir hans Óla Björns borga. Já, listinn heldur áfram og ég ekki byrjaður á heilbrigðiskerfinu eða öryggismálum þjóðarinnar.

Opinberar upplýsingar staðfesta að atvinnurekendur fara illa með láglaunakonur. Þeim fjölgar mjög hratt sem leita aðstoðar vegna vinnuslita og kulnunar í starfi. Þá er nú gott að hafa ríkisrekið heilbrigis- og stuðningskerfi. Vinirnir hans Óla Björns halda bara áfram að græða á daginn, grilla á kvöldin og borga ekkert útsvar!

Staðan á Íslandi er athyglisverð í alþjóðlegum samanburði. Landið liggur um miðbik þess lista sem sýnir þetta hlutfall. Við erum langt fyrir neðan öll Norðurlöndin og mest alla vestur Evrópu. Þetta skýrir væntanlega afhverju mennta- og heilbrigðiskerfið er vanfjármagnað. Ekki langt fyrir neðan Ísland er draumaland frjálshyggjunnar, sjálf Bandaríkin. Þar var hlutfallið 38% í fyrra en var 35% árið 1980. Eins og margir vita þá eru Bandaríkin mjög ólík Íslandi í allri uppbyggingu og stærðarhagkvæmni, en samt er hlutfallið 38%. Merkilegt er það Óli Björn!

Ef Óli Björn vill komast neðar á þennan lista þá ætti ríkisstarfsmaðurinn að kynna sér aðstæður í Rúmeníu, Búlgaríu, Albaníu, Aserbajan, Litáen og Indland. Þetta eru löndin sem koma í beit á eftir tyggjólandinu.

Að komast í þennan botn klassa kallar á mikinn niðurskurð og hvar vill Óli Björn byrja? Hér eru þrjár tillögur:

  • 1. Óli Björn gæti byrjað á sjálfum sér og fækkað þingmönnum.
  • 2. Og Óli Björn gæti líka lýst yfir andstöðu við fjölmiðlafrumvarpið hennar Lilju. Það styrkir fyrst og fremst uppáhalds dagblaðið hans Óla Björns, hið marg gjaldþrota Morgunblað. Þarna eru nokkur hundruð milljónir sem má spara.
  • 3. Nýja skrifstofubyggingin sem Alþingi vill byggja kostar marga milljarða. Þetta má spara enda hafa þingmenn komist af án þessarar lúxusbyggingar.

Svo er ágætt að spyrja í lokin af hverju Óli Björn iðkar ekki það sem hann prédikar? Hann hefur starfað um langa hríð hjá hinu opinbera eða síðan hann setti eigin fjölmiðil á hausinn með miklum látum. Treystir hann sér ekki út á hinn frjálsa vinnumarkað sem hann elskar svo heitt? Óli Björn virðist ver hinn nýi Frikki Sophusson sem æpti báknið burt en starfaði síðan allar götur hjá ríkinu og gerir enn!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: