- Advertisement -

Orkupakkinn á mannamáli

Tilgangurinn getur ekki verið annar en að grafa undan aðild Íslands að EES og skapa sundrung.  

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Jóhann Þorvarðarson.

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) kveður á um frelsin fjögur. Frjáls viðskipti með vöru og þjónustu. Frjálsa för vinnuafls og frjálst flæði fjármagns.  Tilgangurinn er að skapa friðsamt markaðssvæði án hindrana neytendum til hagsbóta. Raforka er verslunarvara og orkupakkinn (lagapakki) fellur undir EES samninginn. Dæmi um EES hagræði er bann við landamæragjöldum (reikigjöld) á sviði fjarskipta. Þannig má nota farsímann hvar sem er innan EES eins og maður sé staddur í eigin heimalandi án aukakostnaðar.    

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ísland er ekki aðili að orkumarkaði EES og ber  ekki skylda til að tengjast markaðnum með sæstreng. Það sama á til dæmis við um íslenska fisksala. Þeim ber ekki skylda til að selja fisk inn á EES. Íslenskum aðilum stendur aftur á móti til boða að eiga frjáls tolllaus viðskipti við svæðið vegna aðildar Íslands að EES samningnum. Það hafa íslenskir aðilar nýtt sér með góðum árangri í 27 ár.         

Allt landgrunn í landhelgi Íslands fellur utan við EES samninginn. Orkupakkinn breytir þar engu. Nýting á landgrunninu er alfarið á forræði Íslendinga og er hluti af fullveldisrétti þjóðarinnar. Afsal á nýtingu grunnsins að hluta eða öllu er á herðum Alþingis og forseta landsins samkvæmt stjórnarskrá Íslands. EES samningurinn trompar ekki stjórnarskránna.

EES samningurinn og þar með orkupakkinn felur heldur ekki í sér skerðingu á fullveldinu. Alþjóðasamningar sem Íslendingar eiga aðild að styrkja fullveldið eins og Bjarni Már Magnússon hjá Háskólanum í Reykjavík hefur útskýrt ágætlega. Með alþjóðasamningum er verið að beita fullveldisréttinum ekki skerða hann. Þetta hafa alþjóðadómstólar staðfest ítrekað allar götur síðan árið 1923 að sögn Bjarna Más.

Fjas um fullveldisskerðingu og að samningurinn um EES skyldi Íslendinga til að heimila lagningu sæstrengs er falskur áróður. Tilgangurinn getur ekki verið annar en að grafa undan aðild Íslands að EES og skapa sundrung.  


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: