- Advertisement -

Óskaskrín snuðar viðskiptavini

Jóhann Þorvarðarson:

Ef seld eru tíu þúsund brönskort þá er andvirði þjófnaðarins fimm milljónir króna, sem er slatti í poka.

Ég átti Óskaskrínskort „Bröns fyrir tvo“ sem ég nýtti nýlega. Verðmæti kortsins á að vera 6.490 krónur samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins. Þegar ég greiddi fyrir brönsana þá var ég snuðaður um 500 krónur eða sem nemur um 8 prósent af andvirði kortsins. Ég keypti reyndar fyrir meira en 6.490 krónur og hefði verið í lófa lagið að láta 500 krónurnar renna upp í heildarfjárhæðina eða bara greiða mér til baka í seðli þessar 500 krónur. Nei, rauði seðilinn gufaði bara upp. Ég átti annað brönskort og nýtti það á öðrum veitingastað einhverju síðar. Aftur var ég snuðaður.

Ég hafði samband við Óskaskrín og þar var Hrönn Bjarnadóttir til svara. Sú hafði takmarkaðan áhuga á málinu í fyrstu, en reyndi síðan að bjóða mér þöggunarmútur í formi nýs brönskorts mér að kostnaðarlausu. Ég afþakkaði enda tilgangurinn ekki að snapa út kort heldur var ég að vonast eftir að málið yrði leyst sómasamlega fyrir neytendur. Að lokum þá bauð hún mér endurgreiðslu á rauða seðlinum. Ég afþakkaði aftur og nú af prinsipp ástæðum. Hélt samt áfram að óska eftir að kerfið yrði fært til eðlilegs vegar í stað þess að vera snuðaður. Árangurinn var enginn.

Ég velti því fyrir mér hvað verður um alla fimm hundruð karlana, sem fólk er snuðað um. Enda þeir inni á bankareikningi Óskaskríns þar sem Hrönn getur ráðstafað fénu til eigin nota eða í niðurgreiðslu á rekstri fyrirtækisins. Eða endar þetta hjá veitingahúsunum, sem væri auðvitað sami þjófnaðurinn. Hrönn hefur ekki svarað spurningunni.

Ef seld eru tíu þúsund brönskort þá er andvirði þjófnaðarins fimm milljónir króna, sem er slatti í poka. Og ef verslað er fyrir einungis 5.500 krónur þá tapast einn Brynjólfur Sveinsson og fólk er þá snuðað um tíu milljónir króna. Engu breytir ef andvirðið endar hjá veitingahúsunum því þjófnaður er þjófnaður.

Þetta er vinsæl gjafavara og hagsmunamál neytenda að auglýsingar fyrirtækisins segi rétt frá. Ég hef upplýst Neytendasamtökin um gangverk Óskaskrínskortanna og þau skoða kannski þetta svarthol Óskaskríns.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: