- Advertisement -

Öskrandi forseti

Var bæði öskrað og barið með krepptum hnefanum.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Forseti Alþingis, hann Steingrímur J., var nýlega með stærilæti og gauragang úr ræðustól Alþingis vegna algjörs smáatriðis. Ingu Sæland þingmanni varð á að leggja út frá rangri söguskýringu. Leiðréttingu hefði mátt koma á framfæri með lipurri ábendingu, en hinn drambsami forseti kaus aðra leið.  

Í umræðunni um krónu á móti krónu skerðingu hjá fötluðum og öryrkjum varð Ingu á að fullyrða ranglega að ríkisstjórn Jóhönnu Sig. og Steingríms J. hafi komið kerfinu á. Þetta smáatriði í samhengi hlutanna var meira en Steingrímur J. þoldi. Vippaði hann sér í ræðustól eldrauður í framan og þrumaði yfir þingkonunni. Þegar verst lét var bæði öskrað og barið með krepptum hnefanum í púltið svo undirtók í þingsalnum. Í ofsanum þá sleppti Steingrímur alveg að nefna að umrædd ríkisstjórn afnam ekki krónu á móti krónu kerfið.

Ef frammistaða Steingríms J. í ræðustól Alþingis á hans alltof langa þingferli væri flekklaus væri innistæða fyrir bramboltinu. En slíku er bara ekki til að dreifa. Nægir að nefna þegar Steingrímur J. kallaði Davíð Oddsson gungu og druslu úr ræðustól þingsins. Af mörgu er að taka í þessum efnum.

Það sorglega er að Steingrímur J. hafði ekkert málefnalegt fram að færa í umræðunni og nýtti ekki tækifærið til að útskýra af hverju löggjafinn mismunar ólíkum þjóðfélagshópum. Búið er að afnema krónu á móti krónu skerðinguna hjá öldruðum upp að 100.000 krónur í atvinnutekjur. Á sama tíma sæta fatlaðir og öryrkjar 100% skerðingu.

Ef umrætt frumvarp verður að lögum þá heldur mismununin áfram. Fatlaður einstaklingur eða öryrki sem aflar sér 100.000 krónur í atvinnutekjur heldur eftir eingöngu 24.000 krónum. Um 76% fara í skatta og skerðingar. Þetta er áframhaldandi mismunun sem forsetinn forðaðist að ræða. Já, það er stórmannlegt að áfram skal níðst á hinum breiðu bökum fatlaðra og öryrkja.

Nokkrir þingmenn nefndu að Steingrímur J. og meirihlutinn  skammti þessum hópi skít úr lófa. Því má bæta við að seinna sama dag og Steingrímur fór hamförum í ræðustól þá skutlaði einkabílstjóri hans honum heim á rándýrum ráðherrabíl.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: