- Advertisement -

Óstjórn, vanþekking og getuleysi

Sjálfshól forsætisráðherra á landsfundi Vinstri grænna í gær um góðan árangur ríkisstjórnarinnar er hjárænulegt þegar þetta mikla atvinnuleysi blasir við öllum.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Hagstjórn landsins er í molum. Ríkisstjórn og Seðlabanki Íslands ráða ekki við verkefni dagsins sem er að halda uppi háu atvinnustigi og lágri verðbólgu. Báðir aðilar hafa brugðist. Rangar ákvarðanir hafa verið teknar. Sumar aðgerðir eru þó skynsamar en eru illa  tímasettar og veikburða. Árangurinn skilar sér því of hægt í hús, atvinnuleysi hrannast upp. Í samanburði við lönd beggja megin við norður Atlantshafið þá sker Íslands sig úr sökum lélegs árangurs í hagstjórninni. Samanburðurinn varpar ljósi á getuleysi valdhafa til að takast á við efnahagsvandann.

Á mynd 1 þá er 12,1 prósent atvinnuleysi á Íslandi borið saman við meðal atvinnuleysi hjá nágrannalöndum okkar, sem er 6,7 prósent. Aðeins á Spáni er atvinnuleysið meira en á Íslandi. Í Færeyjum þá er atvinnuleysið aðeins 1,4 prósent. Í Danaveldi stendur það í 4,4 prósentum og 5 prósentum í Noregi. Vestan við okkur þá er atvinnuleysið 6,7 prósent í Bandaríkjunum og 8,8 prósent í Kanada. Aðgerðir eða aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar endurspeglast í miklu atvinnuleysi. Sjálfshól forsætisráðherra á landsfundi Vinstri grænna í gær um góðan árangur ríkisstjórnarinnar er hjárænulegt þegar þetta mikla atvinnuleysi blasir við öllum.

Á mynd 2 sést að verðbólga síðustu 12 mánaða var 4,3 prósent á Íslandi á sama tíma og bólgan var 0,9 prósent í kringum okkur að jafnaði. Í Færeyjum þá lækkaði verð á tímabilinu og það hækkaði um hálft prósent í Svíþjóð og Danmörku. Í Frakklandi var engin verðbreyting um leið og hún var upp um 1 prósent í Þýskalandi. Í landi vesturfaranna mældist verðbólgan einungis 0,7 prósent og sunnan við Kanada var hún 1,4 prósent.

Stjórn peningamála er sér kapítuli. Hún er að mestu mislukkuð út frá sjónarhóli verðbólgunnar og atvinnustigs. Ólíkt öðrum seðlabönkum á vesturlöndum sem lækkuðu stýrivexti strax í núll prósent og neðar við upphaf heimsfaraldursins þá hafði sá íslenski aðrar hugmyndir. Taldi betra að silast áfram eins og skjaldbaka á kostnað atvinnulífsins. Í dag þá eru stýrivextir enn miklu hærri en hjá nágrönnum okkar og standa í 0,75 prósentum. Magnbundin uppkaup á ríkisskuldabréfum stendur einnig á sér.  Á sama tíma þá missti Seðlabanki Íslands tökin á krónunni þrátt fyrir ólöglegt markaðssamráð við lífeyrissjóði landsins um að halda sig frá gjaldeyrismarkaði. Til aukreitis þá ákvað bankinn að taka krónuna ekki tímabundið af markaði á fordæmalausum tímum. Taldi verjandi að hafa krónuna óvarða í ölduróti gjaldeyrismarkaða með tilheyrandi öfgakenndri veikingu. Bankinn var síðar neyddur til að nota meira en 100 milljarða króna af gjaldeyrisvarasjóði landsins í glórulaus markaðsinngrip sem voru af áður óséðri stærðargráður. Á sama  tíma voru myntir nágrannalanda stöðugar. Samantekið, þá olli misheppnuð peningamálastjórn bankans stórum hluta verðbólgu umliðinna mánaða.

Núna er traustið sett á erlenda lántöku ríkissjóðs upp á 117 milljarða króna til að halda krónunni í skefjum. Fjárhæðin samsvarar lækkun varasjóðsins. Málið er bara að það kemur að skuldadögum og þá kemur öfug virkni fram. Núverandi valdhafar eru að sópa vandanum fram í tímann. Ætlast er til að framtíðar valdhafar hreinsi óhreinindin upp og leiðrétti efnahagslegt ójafnvægi. Allt er þetta hið mesta klastur og meiriháttar vanþekking á ferðinni. Nema þetta sé með ráðum gert, það væri verra.

Mál málanna er að vinna bug á geipilegu atvinnuleysi og samkeppnishamlandi verðbólgu. Samt eyða oddvitar ríkisstjórnarinnar meiri tíma í að tala um einkavæðingu Íslandsbanka en nokkuð annað.  Ríkisstjórnarmegin þá er það Sjálfstæðisflokkurinn sem ber mestu ábyrgðina enda hefur flokkurinn farið með stjórn efnahagsmála nánast sleitulaust í áratugi. Flokkurinn hefur sömu stefnu og Samtök atvinnulífsins í efnahagsmálum. Stefnu sem er úr sér gengin eins og ég hef ítrekað lýst í eldri greinum hér á Miðjunni. Þannig að það er engin tilviljun að Ísland er í mun verri stöðu en nágrannar okkar. Einkenni stefnunnar er að ástunda viðbragðastjórnun í stað fyrirhyggju og stefnumörkunar. Kjarni stefnunnar er að ríkið eigi að gera sem allra minnst hverju sinni og helst ekkert er draumur sumra óábyrgra manna. Þessi stefna kallast „laissez-faire“ og er grundvöllur nýfrjálshyggjunnar sem er dauð.

Vegna löngunar einstakra stjórnmálamanna í valdastóla þá tekst Sjálfstæðisflokknum nánast undantekningarlaust að koma sér í ríkisstjórn. Í dag þá eru það Framsóknarflokkur og Vinstri græn sem eru í hlutverki meðvirkra aukaleikara. Fórnarlömbin eru aftur á móti mikill meirihluti landsmanna.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: