- Advertisement -

Óvinirnir í Seðlabankanum

Sérhagsmunagæslan er sérstakt efnahagsvandamál og veldur því að Seðlabankinn veldur ekki hlutverki sínu.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Boltinn er hjá forsætisráðherra að aðhafast í samræmi við tilefnið.

Seðlabankar í kringum okkur tóku hiklausar ákvarðanir til að bregðast við efnahagslegum áhrifum Covid-19 veirunnar og lækkuðu stýrivexti lóðbeint niður í núll prósent með snarpri vaxtákvörðun í mars. Sumir bankar voru jafnvel fyrr á ferðinni. Seðlabanki Íslands hefur aftur á móti verið svifaseinn í sínum aðgerðum, hikandi. Hagfræðingar bera Ísland stundum saman við eyjuna Nýja Sjáland vegna líkinda hagkerfanna, en þar í landi voru menn búnir að færa stýrivextina niður í fjórðung úr prósenti sextánda mars síðastliðinn. Í vikunni þá voru stýrivextir lækkaðir í eitt prósent á Íslandi og var það fjórða vaxtalækkun ársins. Grunnvextir á Íslandi eru því allt að heilu prósentustigi hærri en hjá samkeppnislöndum. Þetta margfaldar sig upp í að vextir verða 1,8-2,8 prósentustigum hærri þegar til lántakanda er komið en hjá nágrannaríkjum okkar. Afleiðingin er að samkeppnishæfni landsins versnar að óþörfu þar sem hærri fjármagnskostnaður læðir sér alltaf á endanum inn í verðlagið. Það veikir síðan viðnámsþrótt hagkerfisins og seinkar viðspyrnunni. Seinagangur Seðlabankans nær einnig til annara stjórntækja bankans sem hefur verið beitt treglega og seint. Sem dæmi þá var það fyrst í vikunni sem bankinn hætti að bjóða viðskiptabönkum að binda hjá sér fé í 30 daga.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Aðrir seðlabankar eru í fyrirbyggjandi stýringu á meðan Seðlabanki Íslands er í viðbragðsstýringu. Bíður eftir hver viðbrögð markaðarins verða við hverju örstuttu skrefi. Bandaríski seðlabankinn tók djarfar ákvarðanir strax í mars og beitti öllum vopnum sýnum samstundis. Þar með var fjármálamarkaðnum beint með styrkri hönd í tilætlaðan farveg vafningalaust. Aftur á móti gengur Seðlabanka Íslands illa að virkja markaðsaðila á Íslandi í lið með sér. Hlutirnir dragast áfram í vaxandi óvissu. Viðskiptabankarnir hafa hingað til getað viðhaldið háum vaxtamun og leikið sér með áhættuálag vaxta í skjóli Seðlabankans. Þeir eru því ófúsir til að grípa til úrræða sem hagkerfið þarfnast í dag. Áhættufælni plagar viðskiptabankana og hjálpar seinagangur  Seðlabankans ekki til. Það skortir öfluga forystu í Seðlabankann og fyrir vikið hafa Íslendingar tapað dýrmætum tíma í að undirbúa jarðveginn fyrir viðspyrnuna. Forystuleysið er að kosta landsmenn gríðarlegar fjárhæðir, mikill fórnarkostnaður er á ferðinni.    

Mennirnir eru óvinir þjóðarinnar!

Frá mínum sjónarhól séð þá er alvarleg fyrirstaða innan peningastefnunefndar Seðlabankans sem veldur þessu. Allavega tveir ef ekki þrír nefndarmenn hafa lýst því yfir opinberlega að þeir séu ekki fylgismenn þess að vaxtarstig færist niður á sama plan og þekkist hjá nágrannalöndum. Afstaðan byggir á að lægri vextir bitni á fjármagnseigendum eins og að hagsmunir þeirra standi almannahagsmunum ofar. Þessi sérhagsmunagæsla er óboðleg og hefur komið í veg fyrir að stýrivextir lækkuðu lóðrétt niður í núll prósent.

Sérhagsmunagæslan er sérstakt efnahagsvandamál og veldur því að Seðlabankinn veldur ekki hlutverki sínu. Mennirnir eru óvinir þjóðarinnar! Það þarf því nauðsynlega að skipta þeim út í nafni heildarhagsmuna og hleypa ferskum hugum að. Hugum sem aðhyllast nútíma haglausnir! Áhættan er líka til framtíðar því með þetta viðhorf innanborðs þá mun bankinn vera fljótur að hleypa vöxtum aftur upp á við á sama tíma og nágrannar okkar hreyfa sig ekki. Sú staða mun draga enn frekar úr samkeppnishæfni landsins. Spurning dagsins er því þessi „hvað má þetta úrelta viðhorf kosta þjóðarbúið áður en ljós kemur á peruna?“ Boltinn er hjá forsætisráðherra að aðhafast í samræmi við tilefnið.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: