- Advertisement -

Páll Kr. jólakettinum að bráð!

Svo þetta að lokum, hvað fengu framkvæmdastjórar í bónus á árinu?

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Páll Kr. Pálsson framkvæmdastjóri segir jólabónus vonda leið til að bæta kjör fólks í gölluðum pistli í Fréttablaði dagsins. Kennir þeim um sem hann kallar bírókrata, sem hafa ekkert með málið að gera. Alþingi setur skattalögin og aðilar vinnumarkaðarins semja um kaup og kjör. Þar á meðal er hann sjálfur eða kannast hann ekki lengur við að hafa verið sjálfur virkur í starfi hagsmunasamtaka atvinnulífsins í gegnum áratugina? Ég get rifjað upp fyrir honum að þar lagði hann djarfa hönd á sérhagsmunaplóginn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Viðhorf Páls endurspeglar fyrst og síðast fordóma.

Páll segir of lítið renna í vasa launþegans eða einungis 37% af jólabónusnum í dæminu sem hann nefnir. Þetta er rangt hjá framkvæmdastjóranum og verkfræðingnum enda ruglar hann saman eplum og appelsínum. Talar hann eins og að greiðslur í lífeyrissjóð gagnist launþegum almennt ekki við töku eftirlauna. Þetta er rangt nema hann gefi sér að lífeyrissjóðir muni ekki ávaxta lífeyrissparnað fólks sómasamlega. Það er allt annað mál.

Síðan flokkar Páll greiðslur í sjúkrasjóð, orlofssjóð og stéttarfélag sem útgjöld sem gagnist launþeganum ekki. Þetta er einnig rangt. Viðhorf Páls endurspeglar fyrst og síðast fordóma gagnvart áunnum réttindum launþega sem fjármagna þetta kerfi sjálfir, en ekki atvinnurekendur. Launþegar hafa hingað til metið þessa þætti sem mikilvæga hluta af sínum kjörum.

Svo er það þetta með tryggingargjaldið sem hefur ekkert með kjör launþega að gera. Þetta er skattur á launagreiðandann, en ég get verið sammála um að hann þarf að lækka. Hann er óhóflegur.

Saman tekið, þá heldur launþeginn eftir 63% af jólabónusnum ef hann er í neðra skattþrepi, en ekki 37% eins og Páll heldur ranglega fram. Launþeginn ráðstafar sínum jólabónus í: eyðslu eða sparnað, í lífeyrissjóð, í sjúkrasjóð, í orlofssjóð og í stéttarfélag.

Hvað launþeginn ákveður að gera við jólabónusinn hefur síðan ekkert með virðisaukaskattinn að gera eins og Páll gefur til kynna.

Svo var það með daprara lagi hjá Páli að kenna núverandi skattkerfi við vinstrimennsku. Þannig háttar til að flokkurinn hans Páls, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur verið við stjórnvöld nánast samfleytt frá öndverðu, oftast með afturhaldinu Framsókn. Þannig að rétt er að kenna skattkerfið við hægrimennsku.

Svo þetta að lokum, hvað fengu framkvæmdastjórar í bónus á árinu?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: