- Advertisement -

Pirraður forsætisráðherra

Verðbólga á Íslandi er komin í 4 prósent á meðan hún mælist vart hjá frændum okkar.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lét mikið fyrir sér fara á Alþingi í dag þegar hún átti í orðaskaki við Ingu Sæland þingmann Flokk fólksins. Ráðherrann sagði orðrétt „Við skulum þá tala um staðreyndir“ og bætti svo við „Ef háttvirtur þingmaður myndi leggja sig eftir því þá væri svo sannarlega hægt að fara yfir það hvernig jöfnuður hefur þróast á Íslandi“. Ráðherrann hélt áfram að fjasa án þess að leggja fram umræddar staðreyndir um þróunina. Ætla ég því að taka ómakið af ráðherranum og botna mál hans. Á mynd sem fylgir má sjá hvernig laun Katrínar Jak og láglaunakonunnar hafa hækkað að undanförnu. Munar hér 155 prósentum sem Katrín fær umfram láglaunakonuna. Á annarri mynd má síðan sjá þróun mála milli efsta launalagsins og þess næst neðsta yfir sex ára tímabil. Aftur sést hvernig láglaunakonur hafa setið eftir. Myndin hefur ekki breyst frá árinu 2018 þrátt fyrir áróður um annað. Um þetta tiltekna atriði hef ég fjallað eins og til dæmis hér Morgunblaðið með vafasöm skilaboð.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það var fleira sem kom fram í máli forsætisráðherra eins og þetta hér „Verið er að beita tækjum peningastefnunnar til að tryggja gengi krónunnar“. Jamm og já, undarlegra getur það vart verið þegar staðreyndir eru skoðaðar. Á meðan danska og sænska krónan halda stöðu sinni gagnvart evru þá er sú íslenska dottinn niður í gamla kolakjallarann við Kalkofnsveg. Liggur hún þar í reiðileysi. Verðbólga á Íslandi er komin í 4 prósent á meðan hún mælist vart hjá frændum okkar. Þetta kallast víst að beita peningastefnunni til að tryggja gengi krónunnar. Mætti ég biðja um annan betri.

Betra væri ef forsætisráðherra haldi stillingu sinni og tali af þekkingu á hinu æruverðuga Alþingi, sem hinn yfirvegaði Steingrímur Joð stjórnar af svo mikilli virðingu. Ef einhver hefur gleymt því þá er ég að tala um hinn þaulsetna rauð sem grætti sömu Ingu Sæland úr ræðustól Alþingis. Já, um leið og hann barði með krepptum hnefanum í púltið. Það er umhugsunarefni af hverju Inga Sæland getur vart mælt án þess að makkarnir á villiköttunum í Vinstri grænum verði úfnir.      


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: