- Advertisement -

Flestir dómarar við Hæstarétt eru í annarri vinnu. Þiggja samt full laun

Hefðin hingað til er að fræðimenn sem skipaðir eru við Hæstarétt láta jafnframt af störfum við lagadeildina.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Samgróin tengsl Hæstaréttardómara og lagadeildar Háskóla Íslands er óskapnaður sem ekki á erindi þar sem lýðræði og fjölbreytni er skipan mála. Á ferðinni er einhver pútínismi fjögurra dómara við réttinn sem sanka að sér áhrifum og völdum langt umfram það sem eðlilegt getur talist innan lagadeildar Háskóla Íslands. Og landsmenn eiga enga aðkomu að þeirri skipan að lítill ættflokkur dómara hreiðri um sig við lagadeildina.   

Í raun er akademískt hlutleysi lagadeildarinnar undir árás þar sem umræddir dómarar geta hæglega mótað samræðuhefðina innan deildarinnar og beitt akademískri þöggun ef óþægileg gagnrýni á Hæstaréttardóma kemur upp í rannsóknum. Í dag þá heykjast fjórir hæstaréttardómarar á að víkja úr embættum við lagadeildina. Halda þeir þar með öðrum frá því að fá frama eða ráðningu við lagadeildina. Þrír dómarar eru prófessorar og sá fjórði er dósent. Meðal þeirra er sjálfur forseti réttarins, Benedikt Bogason. Síðan er fimmti dómarinn kennari við háskólann í Nauthólsvík þar sem dönsku strandstráin blakta í blíðunni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hefðin hingað til er að fræðimenn sem skipaðir eru við Hæstarétt láta jafnframt af störfum við lagadeildina. Skipanin nær aftur til þess tíma þegar Ármann Snævarr var skipaður við réttinn, jafnvel mun aftar. Í dag þá eru breyttir tímar vegna valdagírugra einstaklinga. Hæstaréttardómararnir telja sig ómissandi og hafa gleymt orðum skáldsins sem sagði kirkjugarða landsins fulla af ómissandi fólki.

Íslendingar eiga mikið af frambærilegu fólki á svið lögfræði utan dómstólanna. Þangað er hægt að sækja mikla þekkingu um leið og gætt er að akademísku frelsi, hlutleysi og sjálfstæði. Hin undirliggjandi spurning er hvort starf Hæstaréttardómara sé ekki fullt starf. Eða er svona lítið að gera að dómararnir sækja í hrönnum út fyrir réttinn að verkefnum. Ekki er skýringanna að finna í lökum kjörum dómaranna. Ef verkefnaleysi réttarins er staðreynd þá er einfalt mál fyrir Alþingi að minnka báknið. Almenningur á rétt á því að vel sé farið með skattfé.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: