- Advertisement -

Ráðherra á flótta

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

„Allar sóttvarnarákvarðanir hafa nefnilega verið teknar af pólitískum heilbrigðisráðherra í nánu samráði við pólitíska ríkisstjórn.“

Heilbrigðisráðherra segir að ekki eigi að ræða sóttvarnir landsins á umliðnum átján mánuðum út frá sjónarhóli stjórnmálanna. Þarna mælir lafhræddur stjórnmálamaður. Allar sóttvarnarákvarðanir hafa nefnilega verið teknar af pólitískum heilbrigðisráðherra í nánu samráði við pólitíska ríkisstjórn. Fyrir aðeins fjórum vikum þá tók Svandís þátt í fagni með Áslaugu Örnu dómsmálaráðherra. Ísland var víst fremst allra þjóða í sóttvörnum og frjáls innflutningur á deltaafbrigðinu var heimilaður. Á þeim tímapunkti þá þáði Svandís klappið og hólið frá sérhagsmunum landsins enda komin á pólitískar atkvæðaveiðar. Núna þegar röng stefna í vörnum landsins eru öllum augljósar þá á að þagga umræðuna niður. Henni verður ekki kápan úr því klæðinu enda sóttvarnir stærsta pólitíska mál samtímans.

Ríkisstjórnin hefur rennt sér á vatnsrennibraut…

Ef sóttvarnir eru svona ópólitískar af hverju þurfti þá að halda neyðarfund á Egilsstöðum þangað sem ráðherrar voru fluttir með rándýru einkaflugi. Fundur sem tók meira en tvær klukkustundir á meðan þjóðin beið með öndina í hálsinum. Það tekur ekki tvo tíma að fara eftir ráðleggingum ópólitísks sóttvarnarlæknis, ekki frekar en endranær. Málið er einfaldlega það að ríkisstjórnin hefur ekki alltaf farið að ráðleggingum sóttvarnarlæknis heldur beygt af leið á lykilaugnablikum til að taka pólitískar ákvarðanir. Þjónkun við sérhagsmuni hefur mótað sóttvarnir landsins. Það staðfesti Áslaug Arna með yfirlýsingu 19. júlí síðastliðinn. Hún sagðist á móti hertum landamærareglum vegna hagsmuna ferðaþjónustunnar. Þessa sögu þarf ekki að rifja upp fyrir neinum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ætli ég verði ekki að bjóða mig fram til þingsetu.

Ríkisstjórnin hefur rennt sér á vatnsrennibraut að eigin feigðarósi þrátt fyrir aðvaranir. Það þarf ekki nema að skoða eldri greinar eftir sjálfan mig hér á Miðjunni þar sem ég hef benti á Ný Sjálensku leiðina, en þar í landi er blússandi hagvöxtur, lágt atvinnuleysi og eðlilegt líf að mestu. Frá upphafi faraldursins þá hef ég einnig og ítrekað bent á þau mistök að ætla að vinna sig út úr faraldrinum eins og að framtíðin yrði eins og nýliðin fortíð. Nægir þar að nefna gagnrýni mína á skort á stórefli í innviðafjárfestingum til að auka hreyfanleika vinnuafls. Nei, Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn samþykktu að liggja kylliflöt undir efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins og Samtaka atvinnulífsins. Það er ekki hægt að ljúga sig út úr mistökunum né þagga þau niður. Og þau verða stærsta kosningamálið sama hvað Svandís heimtar.

Það er ekki nóg fyrir þessa ríkisstjórn að biðjast afsökunar á klúðrinu heldur á hún einfaldlega að víkja. Og þeir sem eru þar innanborðs eiga að hætta í stjórnmálum. Trúverðugleikinn er bara farinn, hæfnin er ekki til staðar. Þegar uppi er staðið þá er þetta klúður upp á hundruð ef ekki þúsundir milljarða króna. Ætli ég verði ekki að bjóða mig fram til þingsetu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: