- Advertisement -

Ráðherra á leið í yfirdrátt

Jóhann Þorvarðarson:

Í þessum dansi þá eru dæmin um undirgefni Katrínar orðin of mörg til að hægt sé að flokka mynstrið sem undantekningu eða þjóðarnauðsyn.

Katrín hefur varið Bjarna Ben með kjafti og klóm…

Forsætisráðherra landsins nálgast yfirdrátt hjá þjóðinni. Samkvæmt nýrri mælingu Maskínu hefur traust landsmanna til Katrínar Jakobsdóttur hrunið úr 58 prósentum og niður í 17 prósent á aðeins einu ári. Samhliða hrapinu þá hefur ungliðahreyfing flokksins talið þann kost vænstan að senda frá sér yfirlýsingu og andmæla stuðningi Vinstri grænna við veru Bjarna Ben í embætti fjármálaráðherra. Katrín hefur varið Bjarna Ben með kjafti og klóm í mörgum málum og virðist það engu máli skipta hversu gróf og siðlaus handarbaks vinnubrögð fjármálaráðherra eru því Katrín sættir sig við hvað sem er svo lengi sem hún fær stól forsætisráðherra. 

Tímabilið þar sem Katrín hefur notið fríspils í íslenskum stjórnmálum vegna skorts á álitlegum kvennleiðtogum á Alþingi er nú uppurið. Gáfuleg og sjarmerandi innkoma Kristrúnar Frostadóttur í íslensk stjórnmál breytti nefnilega landslaginu. Hún er forsætisráðherra fremri að andlegu atgervi og er fær um að standa í báðar fætur hjálparlaust. Í raun lætur Kristrún forsætisráðherra líta kjánalega út vegna yfirburðar þekkingar á málum, sem stjórnmálin glíma við.

Mér hefur alltaf fundist Katrín vera týpan sem vill vera memm ef þú ert einn af þessum stóru, en hakan nær bara ekki upp fyrir borðbrúnina þar sem sleggjurnar sitja. Í þessum dansi þá eru dæmin um undirgefni Katrínar orðin of mörg til að hægt sé að flokka mynstrið sem undantekningu eða þjóðarnauðsyn. Eftirgjafirnar eru eiginlega orðnar að reglufestu þannig að samstarfsflokkar í ríkisstjórn ganga að undirgefninni með mikilli vissu.

Nýjasta dæmið um „má ég vera memm áráttu“ Katrínar er samstarf hennar við rithöfundinn Ragnar Jónsson. Þar hangir hún í jakkalafi þessa farsæla rithöfundar á sama hátt og hún nartar í hæla Bjarna Ben við hvert tækifæri.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: