- Advertisement -

Ráðherra í samkrulli við Kaupfélag Skagfirðinga?

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Þrátt fyrir aðvaranir hélt bullið bara áfram á árinu 2017.

Ásmundur Einar Daðason.

Félagsmálaráðherra og bóndasonurinn Ásmundur Einar Daðason heldur fátækum í gaddaðri sultaról á sama tíma og fjölskyldufirma þiggur hundruð milljóna frá ríkissjóði, Arion banka og Kaupfélagi Skagfirðinga. Já, ég er að tala um Þverholtabúið ehf. á Mýrum í Borgarnesi. Eitt stærsta kúa- og nautgripabú landsins. Fjölmiðlar upplýstu fyrir örfáum misserum að eiginkona ráðherrans Sunna Birna Helgadóttir hafi verið prókúruhafi (sá sem ber ábyrgð á fjármálum) firmans og í varastjórn. Ráðherrahjónin bjuggu um líkt leyti að Þverholtum.

Þú gætir haft áhuga á þessum


Frá því fjölskyldan keypti búið hefur það sogað til sín um 320 milljónir í ríkisstyrki. Það er meira en kaupverðið á kúabúinu.

Kúabúið var keypt árið 2012. Úr ársreikningi firmans má áætla að kaupverðið hafi verið í námunda við  300 milljónir. Framlag föður ráðherrans voru 500.000 krónur. Þannig að Arion banki (gamli Búnaðarbankinn) fjármagnaði 99,8% kaupverðsins. Fjárhagsleg áhætta er sem sagt engin á meðan framtíðargróði og eignamyndun rennur til fjölskyldunnar. Á alla mælikvarða eru viðskiptin „win win“ fyrir fjölskyldu ráðherrans. Díllinn segir svo líka þá sögu að Arion banki hefur ekki breyst frá hruni. Innmúraðir og innvígðir fá sína aðalsmeðferð.

Frá því fjölskyldan keypti búið hefur það sogað til sín um 320 milljónir í ríkisstyrki. Það er meira en kaupverðið á kúabúinu.

Ársreikningar undanfarin ár eru hryggðarmynd. Óskiljanlegt er að kúabúið sé enn þá í rekstri. Uppsafnað skattalegt tap í árslok 2017 var 191,5 milljónir, eigið fé neikvætt um hundruð milljóna og veltan aðeins um 200 milljónir. Svo uxu langtíma lán hömlulaust eða um 373 milljónir. Stóðu þær í 639 milljónum í árslok 2017. Glöggt auga sér að þetta gengur ekki upp.

Ársreikningar eru óendurskoðaðir sem er athyglisvert í ljósi mikilla hagsmuna Arion banka. Bankinn horfir í gegnum fingur sér í þessu máli. Það er nefnilega stöðluð krafa banka að krefjast endurskoðaðra upplýsinga þegar fjárhagslegir hagsmunir eru eins miklir og í þessu máli. Ársreikningarnir byggja alfarið á gögnum sem fjölskyldan leggur fram og ekkert er sannreynt af löggiltum endurskoðanda.

Úr ársreikningi.

Ársreikningur fyrir árið 2016 hefur að geyma skýrslu frá KPMG endurskoðun án endurskoðunar eins og sagði. Það sem vekur athygli er vantrú á rekstrarhæfi firmans nema það komi til endurfjármögnun eða viðsnúningur í rekstri. Á mannamáli þá er firmað sagt gjaldþrota!

Þrátt fyrir aðvaranir hélt bullið bara áfram á árinu 2017. Áframhaldandi taprekstur, vaxandi langtíma skuldir og neikvætt eigið fé fór niður í mínus 237 milljónir. Ekkert virtist stöðva reksturinn. Búið rúllar bara áfram á sínum ríkisstyrk og endalausri fyrirgreiðslu frá Arion banka og tengdum fyrirtækjum. Leið fjölskyldunnar virðist greið að sjóðum gamla Búnaðarbankans. Það er augljóst að bak við tjöldin er togað í spotta á réttum stöðum!

Langavitleysan hélt áfram árið 2018 eða þar til stóri bróðir sagði loksins hingað og ekki lengra. Í nóvember það ár kaupir Fóðurblandan hf, sem er að mestu í eigu Kaupfélags Skagfirðinga og FISK Seafood á Sauðárkróki, skúffufyrirtækið Norðurafl fasteignafélag ehf. Það fyrirtæki var skráð á Jakob nokkurn Bjarnason fæddur árið 1960. Nafni skúffufyrirtækisins var breytt í Þverásbúið ehf. Á sama tíma er gerður kaupsamningur milli Þverásbúsins og Þverholtabúsins um kaup þess fyrr nefnda á eignum og rekstri þess síðar nefnda. Fyrir það er greitt með yfirtöku skulda upp á 805 milljónir króna!

Eigendur Fóðurblöndunnar.

Hér endar ævintýri fjölskyldufirma ráðherrans að sinni. Kúabúið safnaði skuldum upp á 805 milljónir og fékk ríkisstyrki upp á 320 milljónir. Samtals meira en 1 milljarður. Þvílíkt bull.   

Og hvað ætlar Fóðurblandan að gera við Þverásbúið sitt? Í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra Fóðurblöndunnar segir að selja eigi búið sem fyrst. Það hefur enn ekki skilað sér samkvæmt opinberum upplýsingum,

Já, en hver á að kaupa? Það verður nú ekki gert nema með geipilegu tapi sem nemur  hundruðum milljóna. Og hvar ætli það tap lendi nú á endanum nema að mestu hjá Arion Banka. Í lok árs 2018 stóðu yfirteknar skuldir við bankann í rúmlega 600 milljónum. Það mun falla á aðra viðskiptavini bankans og þá aðallega aðra bændur.

Skuldir nýja kúabúsins við tengda aðila (Fóðurblandan, Kaupfélag Skagfirðinga og FISK Seafood) stóð í 175 milljónum í árslok 2018. Þetta þarf einnig að afskrifa og þá eru það aftur aðrir bændur sem bera þurfa þann kostnað!

Það er óhætt að segja að fjölskylda ráðherrans skilji eftir sig  skítaslóð. Uslinn og fjaðrafokið kemur illa við pyngju annarra bænda á landinu. Það er alltaf viðskiptavinurinn sem borgar vitleysuna á endanum. Það er nú ekki eins og bændur geti fyrirhafnarlítið snúið annað með sín viðskipti. Nei tangarhald Kaupfélagsins og Fóðurblöndunnar á markaðnum er sterkt. Svo má ekki gleyma að Fóðurblandan er komin í samkeppni við eigin viðskiptavini. Mikið dómgreindarleysi þar á ferð.

Getur einhver útskýrt fyrir mér þetta samkrull ráðherrans við Kaupfélag Skagfirðinga? Af hverju er kaupfélagið að nauðbjarga fjölskyldunni og hvað fæst í staðinn? Rifjast nú upp málshátturinn „Æ sér gjöf til gjalda“.

Pólitískum ferli Ásmundar Einars er lokið að mínu mati. Hann er rúinn öllu trausti. Kaupfélagið er með manninn í vasanum eftir þessa björgun! Hefur líkast til eignfært ráðherrann á sinn efnahagsreikning eins og gert er með atvinnumenn í knattspyrnu.  

Þetta lubbamenni sem er yfirmaður fátæklinga hlýtur að íhuga stöðu sína. Honum er ekki treystandi fyrir kjörum þessa hóps. Ef ekki þá hljóta samflokksmenn og samstarfsflokkar í ríkisstjórn að beina manninum að útidyrunum.Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: