- Advertisement -

„Ráðist að Lúðvík með aðstoð Fréttablaðsins“

Allir þekkja hvað þær kúnstir gengu út á og hverjar afleiðingarnar voru.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festis og stjórnarformaðurinn Þórður Már Jóhannesson notuðu aðalfund félagsins til að ráðast að óháðum og sérstökum kunnáttumanni í samkeppnislögum, Lúðvík Bergvinssyni. Samkeppniseftirlitið skipaði Lúðvík árið 2018 til að fylgja eftir samkomulagi sem gert var við N1 þegar Krónan og Elko voru tekin yfir og fyrirtækin sameinuð undir heitinu Festi. Við þessi viðskipti þá áleit Samkeppniseftirlitið að Festi væri komið með markaðsráðandi stöðu og gert skylt að selja frá sér rekstrareiningar. Til upprifjunar þá er Festi að mestu leyti í eigu lífeyrissjóða landsins.

Eggert og Þórður kvarta undan því að Lúðvík sé dýr á fóðrinu og óviljugur til taumhalds. Eini rökstuðningurinn sem fengið hefur opinberingu er samanburður við önnur samskonar mál. Ekkert er aftur á móti fjallað um hvort þessi önnur mál séu í raun sambærileg þegar kemur að umfangi og flækjustigi. Einnig er ekkert sagt um það hvort að þessi sambærilegu mál hafi fengið skjóta afgreiðslu vegna þess að málsaðilar hafi verið samstarfsfúsir og viljugir að efna samkomulag við Samkeppniseftirlitið.

Fréttablað dagsins birtir gagnrýnislaust forsíðufrétt og heilsíðuviðtal við Eggert og Þórð um málið. Það kemur svo sem ekki á óvart enda leigupenninn Hörður Ægisson skrifaður fyrir áróðrinum. Ég velti því fyrir mér hvort Festi hafi borgað fyrir umfjöllunina enda er Fréttablaðið fyrst og síðast auglýsingapési í dag. Hlutverk Lúðvíks er að gæta hagsmuna neytenda og fannst Herði ekki áríðandi að heyra hans hlið á málinu. Blaðið fjallaði síðan ekkert um hagsmuni neytenda og hvernig stærð Festis ógni hagsmunum þeirra. Ef ekki væri fyrir Costco þá væri í raun engin verðsamkeppni á dagvörumarkaði. Það þekkja neytendur frá fyrir tíð.

Stundin greindi frá því árið 2015 að Eggert eigi að baki gjaldþrot upp á 1,2 milljarða króna vegna tveggja einkahlutafélaga. Upplýst er að Eggert hafi þegar hann var starfsmaður hjá Íslandsbanka/Glitni fengið kúlulán til kaupa á hlutabréfum í bankanum. Allir þekkja hvað þær kúnstir gengu út á og hverjar afleiðingarnar voru. Viðskiptasögu Þórðar Más Jóhannessonar er þjóðþekkt og nær fram fyrir hrunið. Stundin fjallar um umdeild kaup Festis á Íslenskri orkumiðlun á síðasta ári hér Almenningshlutafélagið Festi keypti fyrirtæki af félagi sem forstjórinn stýrði – Stundin.  

Nú stendur upp á lífeyrissjóðina að  skoða hvort árásir Eggerts og Þórðar á Lúðvík sé boðleg og í samræmi við samfélagsviðmið sem sjóðirnir gera til fyrirtækja sem fjárfest er í.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: