- Advertisement -

Ragnar segist vera voða fróður

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Telur að hlutverk gjaldmiðlagengis sé að laga til eftir slaka hagstjórn valdhafa eða mæta ytri áföllum. Þetta er mikill misskilningur.

Ragnar Önundarson skrifaði langloku í Mogga dagsins þar sem hann setur fram úrelt sjónarmið. Viðhorf sem hafa verið hrakin af bæði fólki og fyrirtækjum veraldar. Ragnar byrjar grein sína á kokhreysti og segir þá sem ekki deila ranghugmyndum hans vera ófróða, en hann sjálfur voða fróður. Annað kemur þó á daginn nenni maður að lesa langlokuna í gegn.

Grein Ragnars fróða ber með sér að hann hefur ekki kynnt sér hagsögu Evrópu né tilurð evrunnar. Samt skrifar hann eins og hann þekki efnið. Kemst síðan að þeirri röngu niðurstöðu að best fari á því að Ísland hafi áfram íslenska krónu. Þá verði alltaf hægt að leiðrétta slaka hag- og fyrirtækjastjórn með því að láta krónuna sunka. Sækja þannig leiðréttinguna í vasa launþega. Þessi úrelta hugsun Ragnars er fullreynd og leiddi til gjaldmiðlastríðs í heiminum. Veröldin hefur yfirgefið slík úrræði enda fara 86 prósent af öllum heimsviðskiptum fram í evru eða dollar þrátt fyrir að um 180 gjaldmiðlar séu núna við lýði í heiminum. Fólkið og fyrirtækin hafa valið þessar tvær myntir af góðum og gildum ástæðum sem ég hef rakið í eldri greinum.

Ragnar fróði er upptekinn af þeirri grillu að stóru löndin innan evrusvæðisins hafi hagnast á kostnað þeirra minni sem hann kallar jaðarríki. Ef hinn fróði maður hefði nennt að kynna sér málin þá hefði hann fljótt komist að hinu gagnstæða. Löndum eins og Eistlandi, Slóvakíu, Möltu, Írlandi og Slóveníu hefur öllu farnast feikilega vel eftir upptöku evrunnar. Það sýna hagmælingar. Öll þessi lönd hafa til dæmis vaxið hraðar en Þýskaland og Frakkland og Ísland.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Ragnar Önundarson.

Fróða líkar að vísa til Grikklands og kallar stöðuna þar „Nýjan grískan harmleik“ og álasar evrunni fyrir. Þetta er alrangt eins og nánast allt sem Ragnar setur fram í grein sinni. Væri þetta raunin þá er sú spurning aðkallandi af hverju Grikkir hafa ekki kosið að yfirgefa evrusvæðið. Grikkir vita og viðurkenna að bagalegt ástand þar í landi á sér aðrar rætur en í evrunni. Í raun hafa evrulöndin stutt við Grikkland með myndarlegum hætti.

Evrópusambandið og evrusvæðið er annað og meira en bara viðskiptabandalag. Grunnur bandalagsins er friðarást og friður hefur náðst þrátt fyrir að þjóðirnar séu ólíkar innbyrðis. Með því að opna fyrir viðskipti milli landa þá hafa löndin getað átt í hagkvæmum viðskiptum. Hvert land nýtir sína kosti sér til hag- og velsældar. Franski hagfræðingurinn Frédéric Bastiat sagði eitt sinni að ef viðskipti milli landa yrðu ekki frelsuð þá myndu hermenn streyma yfir landamæri og laða fram stríð. Þetta eru orð að sönnu. Íslendingar ættu manna best að þekkja hversu mikil farsæld fylgir frelsi í milli landa viðskiptum. Án þeirra þá værum við ekki með alla þessa ferðamenn, allan þennan útflutning og allt þetta nýsköpunarfjármagn frá sjóðum Evrópusambandsins. Ragnar fróði er ósáttur við skipunina og vill einangra landið. Í það minnsta gera öll samskipti óhagkvæm og draga úr samkeppnishæfni landsins.

Ragnar fróði sem titlar sig sem fyrrverandi bankastjóra virðist ekki átta sig á hlutverki gjaldmiðla. Telur að hlutverk gjaldmiðlagengis sé að laga til eftir slaka hagstjórn valdhafa eða mæta ytri áföllum. Þetta er mikill misskilningur. Gjaldmiðill hefur alltaf haft bara tvöfalt hlutverki í gegnum árþúsundin. Að geyma kaupmátt sem fólk vinnur sér inn með því að selja tíma sinn og að laða fram auðveld og hagkvæm viðskipti. Að stjórna landi í gegnum gengisbreytingar er fornt og urið. Þegar ég las grein Ragnars fróða þá gat ég ekki varist að rifja upp afsökunarbeiðni forseta landsins á dögunum að hafa sagt í ákveðnu tilefni „ekki vera fáviti“.      


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: