- Advertisement -

Rammvilltur og spilltur

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Sauðagæran er komin á loft og meiningarlausar yfirlýsingar munu nú koma á færibandi. Um leið mun flokkurinn leggja áherslu á að frægir einstaklingar bjóði sig fram í Reykjavík frekar en að þeir séu hæfir, hafi verðleikana sem til þarf.

Framsókn:

Framsókn elur einfaldlega á þjófræði enda flokkurinn aðalleikari við að koma núverandi skipan á.

Hugmynd Lilju Alfreðsdóttur að skattleggja ofurhagnað banka og sjávarútvegsfyrirtækja tekur ekki á rót  vandans, sem er samkeppnisskortur, einkaaðgangur fárra að sjávarauðlindinni og slök hagstjórn. Ef bankaskattur verður settur aftur á þá bitnar hann á viðskiptavinum banka. Þyngri byrðar verða lagðar á skuldara og aðra viðskiptavini því fjármálastofnanir munu einfaldlega velta skattinum út í verðið. Einokunarbankar gefa engan afslátt á eigin græðgiskröfum til að leika góðan Samverja.

Ofurhagnaður útgerðar- og vinnslufyrirtækja er af sama meiði. Örfáir aðilar með einkaafnot sjávarauðlindarinnar greiða ekki sæmilegt afgjald fyrir. Framsókn vill helst gefa kvótann, eins og margsinnis hefur komið fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns flokksins. Sú stefna að setja fiskveiðikvótann ekki á uppboð heldur afhenda þröngri klíku veiðiheimildir til 23 ára í senn veldur því að stétt ólígarka hefur orðið til í landinu. Lítill hópur útgerðarfyrirtækja stundar sjálftöku með því að ákveða sjálfir, bak við tjöldin, hvað þeir eru tilbúnir að borga til þjóðarinnar í leigugjald. Pólitísk ítök þeirra eru óeðlileg og hættuleg lýðræðinu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Vandinn sem Lilja sér ekki er að grunnskipulag hagkerfisins er gallað, óréttlátt og vegur að byggðum landsins. Framsókn elur einfaldlega á þjófræði enda flokkurinn aðalleikari við að koma núverandi skipan á. Einangrunar- og sérhagsmunahyggjan er svo rótgróin í flokknum að hugtakið samkeppni er skammaryrði þar á bæ. Slagorðið „Er ekki bara best að sleppa samkeppni“ segir allt sem segja þarf um stöðuna sem upp er komin.

Ofurhagnaður fjármálafyrirtækja er einnig tilkominn vegna óstjórnar Seðlabanka Íslands. Eitthvað sem ég hef ekki heyrt Lilju eða Framsókn ávarpa. Útspil Lilju er dæmigerð tækifærismennska og tengist komandi sveitarstjórnarkosningum. Sauðagæran er komin á loft og meiningarlausar yfirlýsingar munu nú koma á færibandi. Um leið mun flokkurinn leggja áherslu á að frægir einstaklingar bjóði sig fram í Reykjavík frekar en að þeir séu hæfir, hafi verðleikana sem til þarf.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: