- Advertisement -

Rándýr lausgirt tunga

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Hér ræður að Seðlabankinn skilur ekki afleiðingar eigin ákvarðana. Fyrir vikið þá er verðbólga hér á landi tvöfalt hærri en hún hefði getað verið.

Ég er og hef verið gagnrýninn á Seðlabanka Íslands allt frá því að Katrín Jakobsdóttir skipaði Ásgeir Jónsson óverðskuldað sem seðlabankastjóra. Fyrir því eru mætar ástæður. Ásgeir sannaði nefnilega þegar hann var stjóri yfir hagdeild Kaupþings banka að hann er ekki spámannlega vaxinn, en spáhæfni er mikilvægasti eiginleiki þeirra sem starfa á fjármálamarkaði. Nægir hér að nefna þegar Ásgeir villti um fyrir fjárfestum stuttu fyrir fjármálahrunið 2008. Sagði að betri tíð væri í vændum þegar hann vissi ekki um hvað hann var að tala. Hann hefði betur hamið lausgirtu tunguna enda löngum verið sagt að það sé gull að geta þagað.  

Margir treystu orðum Ásgeirs og fóru því á mis við tækifæri til að bjarga eigin sparnaði úr fjárfestingasjóðum bankans. Tap fólks var geipilegt og margir hafa aldrei beðið þess bætur. Margra ára, ef ekki áratuga, sparnaður gufaði upp. Spyrjið bara lífeyrisþega, lífs og liðna, sem hafa þurft að búa við örbirgð á ævikvöldi sínu vegna orða Ásgeirs.

Ásgeir hefur aldrei axlað ábyrgð eða beðið nokkurn mann afsökunar. Faldi sig frá kastljósinu þar til Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, áður samráðherra föður Ásgeirs, ákvað að setja Ásgeir yfir Seðlabanka landsins. Skipunin var aldrei efnileg eins og er að koma á daginn. Þróun verðbólgunnar undanfarin misseri hefur ítrekað komið bankanum að óvörum eins og eldri spár bankans bera vitnisburð um. Hér ræður að Seðlabankinn skilur ekki afleiðingar eigin ákvarðana. Fyrir vikið þá er verðbólga hér á landi tvöfalt hærri en hún hefði getað verið.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Eins og forðum þá kann Ásgeir ekki að skammast sín né gangast við eigin mistökum og samverkamanna sinna. Kennir sífellt öðrum um. Kemur óhikað fram og álasar launþegahreyfinguna þó fyrir liggi í opinberum gögnum að verðbólga dagsins er ekki launadrifin. Hann stöðvar ekki hér enda með borgarstjóra, Dag B Eggertsson, á heilanum. Alveg eins og Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Ásgeir segir lóðaskort í Reykjavík keyra verðbólguna áfram. Búið er að hrekja kúadelluna margsinnis af mörgum aðilum. Þar á meðal er ég og Gylfi Zoega, sem á sæti í Peningastefnunefnd Seðlabankans. Ásgeir á sem sagt í innanhúss erjum.

Ásgeir var margsinnis varaður við ákvörðunum Seðlabankans hér á síðum Miðjunnar. Það er því brýnt efnahagslegt hagsmunamál að fá annan seðlabankastjóra. Aðila sem hefur manndóm til að gangast við eigin mistökum. Já, og manneskju sem býr yfir spáhæfni. Og þá þarf einhver annar en Katrín að skipa seðlabankastjóra.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: