- Advertisement -

Reimar Pétursson og Klausturmálið

En hvernig hefur Reimar sjálfur hagað sér, er hann góð fyrirmynd?

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Reimar Pétursson lögmaður tók til máls á síðasta aðalfundi Lögmannafélagsins og hafði eitt og annað að segja um framkomu Jóns Steinars Gunnlaugssonar í garð dómstjóra við Héraðsdóm Reykjavíkur. Reimar sagði meðal annars „Framgangan hafi verið óboðleg … þá gæti það bara ekki spurst út um Lögmannafélagið að það léti svona hegðun viðgangast.“ Síðar í ræðu sinni bætti hann um betur og sagði „Hefði ekki verið betra að hafa taumhald og halda aftur af sér og láta bara ekki allt flæða óritskoðað úr eigin munni.“ Reimar er þarna kominn í hlutverk siðapostula, setur sjálfan sig á háhest. Er augljóslega annt um orðspor Lögmannafélagsins og lögmanna almennt. Það er virðingarvert.

En hvernig hefur Reimar sjálfur hagað sér, er hann góð fyrirmynd? Lítum á aðeins þrjú dæmi frá Klausturmálinu landsfræga þar sem Bára, sem er öryrki, kemur við sögu:

Þú gætir haft áhuga á þessum

#1

Reimar ritaði Persónuvernd bréf fyrir hönd skjólstæðinga sinna þar sem hann vænir huldukonu um að hafa komið inn á Klausturbar og rétt Báru ljósan hlut og tekið við öðrum smágerðum úr hendi Báru. Huldukonan steig fram og upplýsti þjóðina um að hún hafi komið til að kasta kveðju á Báru eftir að hafa verið á æfingu í nærliggjandi byggingu. Hún Segist hafa haldið á skopparakringlu í annarri hendi og fartölvu eða ljóðabók í hinni. Í samskiptum við persónuvernd krafðist Reimar þess að aðilar fái að sjá bankagögn og símnotkun Báru á tilteknu tímabili.

#2

Í samskiptum Reimars við Persónuvernd þá segir Reimar einnig að Bára hafi skipulagt aðgerðir sínar í þaula. Bára sjálf upplýsti að hún hafi verið stödd á Klausturbar af einskærri tilviljun á leið sinni á æfingu með hinni meintu huldukonu.

#3

Reimar segir síðan að Bára hafi notast við sérstakan hljóðupptökubúnað. Síðar kom í ljós að Bára notaði bara gamlan og lúinn farsíma sem hún átti sem hefur þann valmöguleika að að taka upp hljóð. Flestir ef ekki allir smartsímar búa yfir þessum kosti.

Áður en lengra er haldið þá skulum við skoða tvær af siðareglum Lögmannafélagsins:

–        Í annarri grein stendur „Lögmaður skal gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sem öðrum athöfnum.“

–        Í þrítugustu og fjórðu grein stendur „Lögmaður skal sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.“

Nú getur lesandinn svarað fyrir sjálfan sig hvort Reimar Pétursson hafi haft efni á að setja sjálfan sig á háhest og ásaka Jón Steinar um óvandaða framkomu. Það kæmi ekki á óvart þó nafnorðið hræsni komi upp í huga lesenda.

Svo fannst mér einstaklega ósmekklegt af Reimari að lesa orðrétt upp á aðalfundinum hluta af þeim samskiptum sem fóru á milli Jóns Steinars og dómstjórans. Reimar vistar augljóslega upplýsingar um samskiptin í sínum persónulega farsíma. Hann las skilaboðin upp af skjá símans. Er Reimari heimilt að ganga fram með þessum hætti og lesa samskiptin upp þar sem honum hentar? Spyr sá sem ekki veit, en einkennilegt var þetta og óhróðugt.

Sjálfur met ég stöðuna þannig að Reimar Pétursson þurfi að líta í eigin barm áður en hann sakar aðra lögmenn um að gæta ekki að heiðri lögmannastéttarinnar. Og hann má gjarnan hugleiða það hvort það sé sæmilegt að vista einkasamskipti Jóns Steinars við dómstjórann í farsíma sínum. Hver er tilgangurinn með því, er hann málefnalegur í ljósi þess að málinu er lokið með sigri Jóns Steinars?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: