- Advertisement -

Reynir Traustason sýnir illt innræti

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Reynir fjallar aldrei um það, en er tilbúinn að skrifa níð um sómakonu, sem berst fyrir hagsmunum þeirra sem lægstu launin þiggja í samfélaginu.

Reynir Traustason skrifar orðróms klausu hjá Mannlífi, sem er með illa innrætta fyrirsögn og  ranga fullyrðingu, „Sólveig er grimmur vinnuveitandi í felum“. Reynir á að vita að Sólveig mætti til vinnu í gær og sat stjórnarfund eins og komið hefur fram í fjölmiðlum. Síðan er algengt að fólk iðki fjarvinnu af margvíslegum ástæðum eins og Reynir gerir jafnvel sjálfur. Hinn reyndi blaðamaður gefur sér síðan að Sólveig hafi ekki verið að sinna öðrum vinnuskyldum bara af því að hún sást ekki á kontórnum. Reynir rökstyður síðan ekki af hverju hann uppnefnir Sólveigu grimma.  

Fjöldi starfsmanna er búinn að hertaka Eflingu og makar krókinn miðað við það fram kemur í fjölmiðlum. Síðan er skít sáldrað um víðan völl um Sólveigu og Viðar Þorsteinsson um leið og alvarlegum, en jafnframt fölskum, ásökunum er dreift af fólki sem tapaði lýðræðislegum kosningum hjá Eflingu. Hér er á ferðinni hirð sem hugar ekki að ímynd Eflingar né æru fólks. Af skal æran sama hvað virðist vera kjörorðið.

Við heyrum reglulega af endurskipulagningu fyrirtækja, stofnana og félaga af ýmsum ástæðum. Þá þarf oft að beita altækum uppsögnum til að ná fram nauðsynlegum skipulagsbreytingum og tiltekinni samsetningu starfsmanna. Tilgangurinn er að gera starfsemina hæfari svo markmiðum verði betur náð. Reynir fjallar aldrei um það, en er tilbúinn að skrifa níð um sómakonu, sem berst fyrir hagsmunum þeirra sem lægstu launin þiggja í samfélaginu. Barátta sem hefur það markmið að allir launþegar samfélagsins geti hnýtt saman mánaðarlega framfærslu enda. Já, og geti lifað sómasamlegu lífi, en ekki í oki.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Reynir Traustason hefur augljóslega fjarlægst uppruna sinn og gleymt mörgu.

Ég er hnugginn yfir skrifum Reynis, sem var alinn upp á norðanverðum Vestfjörðum. Þar var oft hart í ári hjá fátækum. Fólk gat þó við erfiðar aðstæður bjargað sér um næringu með því að róa til fiskjar á misvel búnum fleyjum í aðstæðum sem gátu fljótt breyst í aftakaveður. Nú eða fólkið gat veitt upp í lánni í kulda og trekki. Margur safnað síðan matarforða með hættulegum eggjatökum úr klettasyllum stórbrotinna og illkleifra fjalla Vestfjarða.

Fátækir gátu einnig hirt upp rekavið til að byggja sér húsaskjól. Svona hélt fólkið í sér lífinu og braust að lokum margt hvert undan klafa auðvaldsins. Þar spilaði inn í þegar herinn kom sér fyrir á Suðurnesjunum. Mörgum bauðst þá starf og byggð fjaraði víða út. Þar má til dæmis nefna Hornstrandirnar. Reynir Traustason hefur augljóslega fjarlægst uppruna sinn og gleymt mörgu. Hann þarf að hugsa sinn gang vilji hann framvegis vera marktækur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: