
Jóhann Þorvarðarson:
Skipulagið endurspeglar hina raunverulegu ótrú Sjálfstæðisflokksins á markaðslausnum.

Sjálfstæðisflokkurinn segist fylgjandi markaðslausnum og frelsi. Þannig talar hann alla vega við hátíðleg tækifæri og þegar kosningar eru í nánd. Raunveruleikinn er aftur á móti allt annar. Flokkurinn vinnur nefnilega gegn samkeppni alla daga ársins eins og stefnumálin endurspegla. Nærtækast er að nefna andstöðu flokksins við aðild að Evrópusambandinu og upptöku evrunnar. Hvoru tveggja myndi bæta lífskjörin og efla sjálfstæði þjóðarinnar í stað þess að Alþingi sé sjálfsafgreiðslustofnun lagafrumvarpa frá sambandinu.
Í dag þá ríkir fákeppni á Íslandi í flestum grunnstarfsgreinum hagkerfisins. Þar má til dæmis nefna fjarskipti, skipaflutninga, verslunarkeðjur, matvælaframleiðslu, umráð yfir fiskveiðikvótanum, leigumarkaðinn, tryggingar og bankastarfsemi. Með evru þá munu fjölmargir aðilar opna á að hefja starfsemi á Íslandi og auka þar með samkeppni neytendum til heilla.
Á gjaldeyrismarkaði á Íslandi ríkir óvirk fákeppni og ríkisrekstur þar sem hlutdeild Seðlabankans er um 21 prósent af allri veltu það sem af er nóvember mánaðar. Skipulagið endurspeglar hina raunverulegu ótrú Sjálfstæðisflokksins á markaðslausnum.