- Advertisement -

Ríkisstjórn á taugum og Jóhannes niðurrífari með krumlurnar í ríkissjóði!

Til dæmis geta þeir skilað til baka ótímabærum og græðgislegum  arðgreiðslum fyrri ára.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Áhrif kórónaveirunnar blasa við. Hagkvæmasta ráðstöfunin er að láta markaðinn um að hreinsa sig, efla atvinnuleysistryggingasjóð, taka krónuna tímabundið af markaði og lækka vexti í núll.

Fyrirtæki með erindi inn í framtíðina eiga alltaf borð fyrir báru og geta mætt skakkaföllum. Jafnvel miklum skakkaföllum. Þau aðlaga reksturinn hratt að breyttum aðstæðum og koma auga á ný tækifæri. Þannig ná fyrirtæki háum aldri og státa af ævagömlum kennitölum. 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Eins og að pissa í skóinn á köldum degi.

Það sem ríkisstjórnin hefur kynnt sem efnahagslegar hjálparaðgerðir er þegar á hólminn er komið í besta falli vandræðalegt. Niðurfelling gistináttagjalds gerir ekkert enda innheimtist enginn þannig skattur af tómu gistirými. Að veita greiðslufrest í 2-4 vikur á opinberum gjöldum er eins og að pissa í skóinn á köldum degi.

Þau fyrirtæki sem eiga í lausafjárvanda hafa hingað til getað leitað til banka um fyrirgreiðslu til að brúa sín mál og þangað eiga þau að leita núna. Það er ekki hlutverk ríkisins að stíga inn á lánamarkaðinn og fjármagna einkafyrirtæki í vanda. Meira vit er að ríkisstjórnin beiti eignarhaldi á bönkunum tveim sem þjóðin á og búa þar til slaka.

Ef bankar meta stöðu fyrirtækja mjög erfiða þá eru þau annað hvort tekin yfir, skuldum breytt í hlutafé, lengt er í lánum, fyrirtæki sameinuð eða þau sett í þrot. Markaðurinn hreinsar vonlaus fyrirtæki einfaldlega út.  

Á Íslandi þá hafa eigendur fyrirtækja þrjá möguleika í stöðunni. Í fyrsta lagi að setja aukið eigið fé inn í fyrirtækin. Til dæmis geta þeir skilað til baka ótímabærum og græðgislegum  arðgreiðslum fyrri ára. Í öðru lagi er hægt að lækka kostnað tímabundið. Og í þriðja lagi er hægt að stofna nýtt fyrirtæki og byrja aftur. Síðasti kosturinn gæti verið nauðsynlegur reynast bankar ekki samstarfsfúsir.

Ríkisstjórnin ræður ekki við verkefnið.

Bankar reikna með að viðskiptavinir lendi í vanda og endurspeglast það í meiri vaxtamun en ella. Þannig hafa bankarnir byggt upp digra varasjóði til grípa í þegar erfiðleikar steðja að. Núna er þannig tími, en bankarnir hafa fleiri úrræði eins og að dreifa vandanum yfir á langt tímabil og vinna náið með sínum viðskiptavinum.

Ríkisstjórnin hefur augljóslega ekki mikla trú á markaðslausnum heldur lætur gæslumenn sérhagsmuna eins og hann Jóhannes niðurrífara (framvörður ferðaþjónustunnar) sóla sig upp úr skónum. Jóhannes sísyngur barlóminn og er ríkisstjórnin farin á taugum. Krumla niðurrífarans er komin inn í sjálfan ríkissjóð. Þetta er ekki heillavænlegt því launþegar landsins munu þurfa að borga fyrir þessa sérhagsmunagæslu í hærri sköttum í framtíðinni.

Staðan er einfaldlega þessi: Ríkisstjórnin ræður ekki við verkefnið, hana skortir þekkingu og hana skortir yfirvegun í stað flumbrugangs!

Reynslusaga New York

Að tala um fordæmalausar aðstæður er ekki rétt enda geymir hagsagan mörg efnahagsleg fordæmi. Má til dæmis nefna til leiks atburðinn þegar tvíburaturnarnir í New York hrundu í september árið 2001 í kjölfar hryðjuverka. Þá  stöðvaðist öll efnahagsstarfsemi um tíma í Bandaríkjunum. Mikið fór úr skorðum í ferða- og skemmtanageiranum. Í stórum dráttum þá brugðust yfirvöld við með tvennum hætti. Í fyrsta lagi, Seðlabanki Bandaríkjanna tryggði að greiðslukerfið landsins væri í góðu lagi og að aðgangur að miklu lánsfé væri tryggur. Í öðru lagi, veitti Bandaríska ríkið New York lán til innviðauppbygginga og til að lána fyrirtækjum sem urðu fyrir mestu áhrifunum.

Yfir 18.000 fyrirtæki urðu fyrir miklum efnahagslegum áhrifum í New York. Ýmist hættu þau  starfsemi, fluttu sig um set eða byggðu sig upp að nýju. Níu mánuðum eftir fall turnanna þá var búið að veita hátt í 4.700 litlum fyrirtækjum lán til lengri tíma til að takast á við afleiðingar af hryðjuverkunum í gegnum „Development Block Grant Fuds“. Lán voru einnig veitt til lítilla fyrirtækja á landsvísu sem einnig höfðu orðið fyrir skakkaföllum vegna árásanna í núna gegnum „Economic Injury Disaster Loans“. Hér var miðað við að fyrirtækin fengju lán sem næmu nauðsynlegu veltufé til að greiða venjubundin rekstrargjöld í ákveðinn tíma eins og ef turnarnir hefðu ekki hrunið. Aðalatriði er að ekki var hróflað við tekjuöflun hins opinbera í þessum tilgangi. Það yrði slæmt fordæmi inn í framtíðina.

Því miður þá sjá ýmsir óvandaðir aðilar hér á Íslandi sér leik á borði í því ástandi sem hér ríkir og heimta niðurfellingu á sköttum til að afla sér pólitískra vinsælda hjá tilteknum kreðsum. Þar er tryggingargjaldið oftast nefnt, en það gjald fer einmitt í fjármögnun greiðslna til þeirra sem eru án atvinnu. Þessir tækifærissinnuðu gæslumenn sérhagsmuna hafa verið svo ósvífnir að nota ræðustól Alþingis til að koma baráttumálum sínum á framfæri.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: