- Advertisement -

Ríkisstjórn í svaðilför, aftur

Þessi glórulausa aðgerð ríkisstjórnarinnar veitir viðskiptabönkunum heimild til að rukka viðskiptavini sem sækja um stuðningslán og fá allt að 2 prósent í þóknun.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Þau vafasömu tímamót urðu í gær að Fjármálaráðuneytið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og ríkissjóðs er byrjað í almennri lánastarfsemi. Prenta á nýja peninga upp í Seðlabanka upp á 30 milljarða króna til að lána illa reknum eða vonlitlum fyrirtækjum undir því yfirvarpi að um sé að ræða björgun vegna Covid-19 faraldursins. Lánin eru veitt til að greiða rekstrarkostnað eins og launagreiðslur. Hér er um að ræða lánveitingu sem viðskiptabankarnir líta ekki við vegna þess að þau þykja svo áhættusöm og miklar líkur eru á útlánatöpum. Þessi glórulausa aðgerð ríkisstjórnarinnar veitir viðskiptabönkunum heimild til að rukka viðskiptavini sem sækja um stuðningslán og fá allt að 2 prósent í þóknun. Þetta eru viðskiptavinir sem bankarnir gjörþekkja vegna ríkjandi viðskiptasambands og kallar lánaafgreiðslan því á litla fyrirhöfn. Þarna fá bankarnir 600 milljónir króna í umsýslugjöf frá almenningi að því gefnu að ekkert endurheimtist af lánunum sem miklar líkur standa til.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins undir stjórn Bjarna Ben er þarna að stíga inn á hinn frjálsa markað og aftengja gangvirki hans enn og aftur. Áður var hann aftengdur þegar Seðlabankinn gerði ólöglegt samkomulag við Lífeyrissjóði landsins um að sýsla ekki á gjaldeyrismarkaði með krónuna.

Þetta má vera tilviljun, en minna en 12 mánuðir eru til kosninga.

Þessi aðgerð mun reynast vera gálgafrestur og engin björgun. Eitt af forspármerkjum gjaldþrota er þegar fyrirtæki hætta að ráða við launagreiðslur. Aðgerðin mun síðan ótvírætt falsa atvinnuleysistölur landsins og auka á óskýrleika um stöðu hagkerfisins. Athygli vekur að það er sérstaklega tiltekið í samkomulagi Fjármálaráðuneytisins við Seðlabankann, sem sér um samskiptin við bankana, að Stjórnsýslulög, Upplýsingalög og lög um Umboðsmann Alþingis eigi ekki við um ákvarðanir um veitingu stuðningslána. Það út af fyrir sig eykur enn frekar á ógagnsæið og leyndarhyggjuna sem loðir við þessa aðgerð. Ég sé ekki að það standist að víkja þessum lögum til hliðar í ljósi þess að verið er að ráðstafa almannafé og skekkja samkeppni á markaði.

Til viðbótar þá áskilur ríkisstjórnin sér þann rétt að birta ekki nafnalista þeirra fyrirtækja sem njóta munu stuðningslána fyrr en að 12 mánuðum liðnum frá lánveitingu. Þetta má vera tilviljun, en minna en 12 mánuðir eru til kosninga. Getur verið að ríkisstjórnin sé meðvitað að hindra opna og gagnrýna umræðu um þessa efnahagsaðgerð til að forðast umræðu um möguleg lán til vildarvina og fjölskyldna ýmissa stjórnmálamanna?


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: